Fjölnir lagði Keflavík fyrr í kvöld í 20. umferð Subway deildar kvenna, 85-103. Eftir leikinn er Fjölnir í efsta sæti deildarinnar með 30 stig á meðan að Keflavík er í 5. sætinu með 14 stig.

Fyrir leik

Í fjögur skipti höfðu liðin mæst áður í deild og bikar í vetur og hafði Fjölnir sigur í þremur. Eini sigur Keflavíku kom í byrjun tímabils þann 13. október í Dalhúsum, 77-89.

Gangur leiks

Gestirnir úr Grafarvogi byrjuðu leik kvöldsins betur. Náðu að vera skrefinu á undan á upphafsmínútunum, en Keflavík gerði vel í að halda í við og er munurinn aðeins 2 stig að loknum fyrsta fjórðung, 25-27. íöðrum leikhlutanum kemst Fjölnir svo mest 9 stigum á undan heimakonum, sem aftur ná að koma til baka og loka gatinu að mestu fyrir lok hálfleiksins. Þegar að liðin hada til búningsherbergja er munurinn þó 4 stig, 44-48.

Stigahæst leikmanna Keflavíkur í fyrri hálfleiknum var Daniela Wallen með 13 stig á meðan að Aliyah Mazyck dró vagninn fyrir gestina með 19 stigum.

Fjölniskonur koma helvíti sterkar út í seinni hálfleikinn. Eru snöggar að bæta vel við forystu sína í upphafi þriðja leikhlutans, þar sem þær leiða mest með 20 stigum, en staðan fyrir þann fjórða er 60-74. Gestirnir gera svo endanlega útum leikinn í upphafi þess fjórða. Fara mest 30 stigum á undan, en Keflavík nær aðeins að laga stöðuna undir lokin. Niðurstaðan 23 stiga sigur Fjölnis, 85-103.

Tölfræðin lýgur ekki

Fjölnir skaut boltanum mun betur en heimakonur í kvöld, 52% á móti aðeins 35% skotnýtingu Keflavíkur.

Atkvæðamestar

Fyrir Fjölni var Aliyah Mazyck atkvæðamest með 35 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar. Þá bætti Sanja Orozovic við 27 stigum og 11 fráköstum.

Atkvæðamest í liði Keflavíkur var Daniela Wallen með 22 stig, 13 fráköst, 5 stoðsendingar og henni næst Anna Ingunn Svansdóttir með 18 stig.

Hvað svo?

Fjölnir á leik næst gegn Haukum heima í Dalhúsum þann 12. mars. Keflavík á svo leik degi seinn þann 13. mars gegn Grindavík í HS Orku Höllinni.

Tölfræði leiks