Keflavík lagði Breiðablik í Smáranum í kvöld í Subway deild kvenna, 68-82. Eftir leikinn er Keflavík í 5. sæti deildarinnar með 20 stig á meðan að Breiðablik er í 7. sætinu með 12 stig.

Gangur leiks

Gestsirnir úr Keflavík byrjuðu leik kvöldsins mun betur en heimakonur. Ná snemma að vera skrefinu á undan og eru 10 stigum yfir eftir fyrsta leikhluta, 10-20. Undir lok fyrri hálfleiksins láta þær svo kné fylgja kviði og eru komnar 18 stigum yfir þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 24-42.

Heimakonur í Breiðablik virðast þó koma eilítið betur stemmdar til leiks inn í seinni hálfleikinn. Ná þó lítið að vinna á forystu gestanna í þriðja leikhlutanum, en munurinn er enn 16 stig fyrir lokaleikhlutann, 50-66. Í fjórða leikhlutanum tekst Keflavík að halda að mestu í forskot sitt og sigra leikinn að lokum nokkuð örugglega með 14 stigum, 68-82.

Atkvæðamestar

Fyrir Blika var Isabella Ósk Sigurðardóttir atkvæðamest í leiknum með 21 stig, 21 frákast og 6 stolna bolta. Þá bætti Þórdís Jóna Kristjánsdóttir við 22 stigum og 5 fráköstum.

Daniela Wallen var best í liði Keflavíkur í leiknum með 27 stig, 16 fráköst, 6 stoðsendingar og henni næst var Katla Rún Garðarsdóttir með 16 stig og 8 fráköst.

Hvað svo?

Bæði eiga liðin leik í lokaumferð Subway deildarinnar komandi miðvikudag 30. mars. Keflavík fær Njarðvík í heimsókn á meðan að Breiðablik heimsækir Hauka í Ólafssal.

Tölfræði leiks