Leikur Þórs og Breiðablik sem mættust í íþróttahöllinni í kvöld var hin besta skemmtun og eins og búast  mátti við þegar Blikar mæta til leiks þá er mikið skorað. Og í kvöld varð engin breyting þar á enda voru skoruð 225 stig og leikmenn beggja liða í miklu þriggja stiga stuði en samtals litu 35 þriggja stiga körfur dagsins ljós í 85 tilraunum.

Það varð snemma ljóst að leikmenn beggja liða ætluðu að leggja allt í sölurnar og ekkert yrði gefið eftir. Það voru gestirnir sem byrjuðu leikinn betur og leiddu allan fjórðunginn með með tíu stigum um miðjan leikhlutann 10:20. Leikmenn Þórs minnugir þess hvernig leikurinn gegn Vestra endaði ætluðu sér ekki að láta slíkt slys eiga sér stað. Liðið bætti jafnt og þétt í og tóku að saxa á forskotið og þegar leikhlutanum lauk var munurinn aðeins eitt stig 27:28.

Jafnt var á með liðunum fyrstu þrjár mínúturnar og í stöðunni 31:35 kom góður kafli hjá Þór og þeir komust yfir í fyrsta sinn í leiknum 36:35. Um miðjan leikhlutann tókst Þór að ná góðum tökum á leiknum og skoruðu 10:4 það sem eftir lifði leikhlutans og leiddu með tíu stigum í hálfleik 58:48.

Fyrri hálfleikur var heilt yfir fjörugur og skemmtilegur og sennilega einn besti fyrir hálfleikur Þórs í vetur.

Í liði Þórs var Ragnar komin með 13 stig, Kolbeinn Fannar 12 og August 10 og þá voru þeir Dúi Þór og Baldur Örn skammt undan.

Hjá gestunum voru þeir Danero, Barni og Árni með 8 stig hver og Hilmar með 7.

Kolbeinn sem var sjóðheitur í fyrri hálfleiknum opnaði síðar hálfleikinn með þriggja stiga körfu og Þór komið með þrettán stiga forskot 61:48.En Blikar voru ekki búnir að segja sitt síðast og þeir tóku að éta upp forskotið og þegar þrjár mínútur voru eftir að leikhlutanum voru þeir komnir með tveggja stiga forskot 69:71.

Breiðablik vann leikhlutann 15:29 og leiddu með fjórum stigum 73:77 þegar lokaspretturinn hófst.

Fjórði leikhlutinn var afar fjörugur svo ekki sé fastara að orðið kveðið en alls skoruðu liðin 75 stig. Gestirnir náðu mest níu stiga forskoti en Þórsarar minnkuðu muninn jafnharðan og þegar þrjár mínútur voru til leiksloka var munurinn tvö stig 98:100. Loka mínúturnar voru fjörugar eins og leikurinn allur í heild en gestirnir reyndust sterkari og fögnuðu að lokum sjö stiga sigri 109:116.

Hjá heimamönnum lék liðið allt afar vel og geta gengið sáttir og stolti frá leiknum þrátt fyrir tap. Bestur í liði Þórs var Ragnar með 24 stig og 14 fráköst, August var einnig öflugur með26 stig Kolbeinn Fannar var með 20 stig og þar af var hann með sex þrista.

Hjá Breiðabliki voru þeir Everage Richardson, Samuel Prescott og Danero Thomas með 21 stig hver.

Framlag leikmanna Þórs: August 26/7/8, Ragnar 24/14/2, Kolbeinn Fannar 20/1/1, Dúi Þór 13/2/8, Baldur Örn 12/10/2, Ólafur Snær 9/0/1, Hlynur Freyr 3/2/2 og Smári Jónsson 2/2/1.

Framlag leikmanna Breiðabliks: Danero Thomas 21/8/4, Everage Richardson 21/9/6, Samule Prescott 21/8/5, Hilmar Pétursson 17/5/5, Árni Elmar 17/2/5, Sigurður Pétursson 11/4/1, Bjarni Geir 8/2/0.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Umfjöllun, myndir / Palli Jóh

Viðtöl / Guðmundur Ævar Oddsson