Ísland lagði Ítalíu í tvíframlengdum naglbít í undankeppni HM 2023 í Ólafssal, 107-105.

Fyrir leik

Fyrir leik voru Ísland og Ítalía jöfn í 2.-3. sæti H riðils hvort um sig með einn sigur og eitt tap. í neðsta sæti riðilsins Holland með þrjá tapleiki og í því efsta Rússland með þrjá sigurleiki. Sigurinn setur Ísland því í annað sætið í riðlinum Úr þessum riðil munu þrjú lið halda áfram á næsta stig keppninnar, en Ísland á eftir þessa Ítalíuleiki tvo leiki eftir í sumar. Heima gegn Rússlandi og heima gegn Hollandi.

Staðan í riðlinum

Gangur leiks

Gestirnir frá Ítalíu hófu leik kvöldsins betur en heimamenn, setja fyrstu sex stig leiksins. Ísland nær þó að svara því og snúa taflinu sér í vil, eru 3 stigum yfir eftir fyrsta leikhluta, 21-18. Í öðrum leikhlutanum gengur Ísland svo enn á lagið. Vinna fjórðunginn 23-15 og eru því 11 stigum yfir þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 44-33.

Tryggvi Snær Hlinason var stórkostlegur fyrir Ísland í fyrri hálfleiknum með 13 stig, 8 fráköst og 4 varin skot. Þá var Martin Hermannsson með 12 stig og 2 stoðsendingar í fyrri hálfleiknum.

Ekkert sérstaklega mikið var að frétta í ítalska liðinu í fyrri hálfleiknum. Þar var Amedeo Dello Valle með 6 stig og Amedeo Tessitori 2 stig, 7 fráköst.

Ítalir mæta mun ákveðnari til leiks í seinni hálfleiknum. Ná aðeins að vinna á forystu Íslands í þriðja leikhlutanum, komast 6 stigum næst þeim í stöðunni, 62-66. Ísland nær þó að stöðva áhlaupið af og er þessum 6 stigum á undan fyrir lokaleikhlutann, 65-59. Ísland nær að hanga á forystu sinni í fjórða leikhlutanum, en lengst af í fjórðungnum er Ítalía aldrei meira en 2-3 körfum fyrir aftan þá.

Með eina og hálfa mínútu eftir af leiknum setur Martin tvö víti niður og kemur íslandi 5 stigum yfir, 84-79. Gestirnir ná þá góðri mínútu, þar sem Ísland passar boltann ekki nógu vel þeir ná tveimur góðum sóknum. Allt í járnum þegar 28 sekúndur eru eftir af leiknum, 85-85 og Ísland með boltann. Þá stelur Ítalía boltanum og taka skot sem geigar þegar 3 sekúndur eru eftir. Jón Axel Guðmundsson nær frákastinu, geysist upp völlinn og er hársbreidd frá því að tryggja Íslandi sigurinn með flautukörfu. Staðan að loknum venjulegum leiktíma 85-85 og því framlengt.

Framlengingin var svo í járnum. Þar sem lengst af var Ísland stigi á undan. Með glæsilegri “put-back” troðslu kemur Tryggvi Snær Íslandi þremur stigum yfir, 94-91, þegar 22 sekúndur eru eftir. Ítalir ná að jafna með þrist og skilja eftir tæpar 11 sekúndur fyrir lokasókn Íslands. Aftur fær Jón Axel gott skot til að vinna leikinn, en það geigar. Staðan 94-94 og leikurinn á leiðinni í aðra framlengingu.

Leikurinn er svo nokkuð jafn í annarri framlengingunni. Með góðum þrist frá Elvari Má Friðrikssyni nær Ísland þó að komast sex stigum yfir þegar að rétt tæpar 2 mínútur eru eftir af leiknum, 106-100. Undir lokin nær Ísland nokkrum góðum stoppum, passa boltann ekkert alltof vel á hinum enda vallarins, en ná þó að lokum að sigla heim gífurlega sterkum sigri, 107-105.

Tölfræðin lýgur ekki

Skotnýting Íslands var mun betri en gestanna í leik kvöldsins, setja niður 41 af 82 skotum (50%) í leiknum á móti aðeins 37 af 94 skota (39%) Ítalíu.

Atkvæðamestir

Tryggvi Snær var stórkostlegur fyrir Ísland í kvöld, skilaði tröllatvennu 34 stigum, 21 frákasti og þá bætti hann við 5 vörðum skotum. Með 50 í framlag fyrir frammistöðuna, sem verður að teljast ein sú besta, ef ekki sú besta sem leikmaður hefur skilað af sér í íslenska búningnum.

Þá voru þeir Elvar Már Friðriksson og Martin Hermannsson einnig góðir. Elvar með 25 stig, 7 stoðsendingar og Martin 23 stig og 7 stoðsendingar.

Hvað svo?

Leikurinn var sá fyrri tveggja á milli þjóðanna, en komandi sunnudag mætast þær aftur í Bologna á Ítalíu.

Tölfræði leiks

Myndasafn (FIBA / Jónas H. Ottósson)

Myndasafn (Hafsteinn Snær)