Það hefur væntanlega farið fram hjá fáum að íslenska karlalandsliðið bar sigurorð af Ítölum í tvíframlengdum leik í gærkvöldi. Að öðrum ólöstuðum var Tryggvi Snær Hlinason maður leiksins en Tryggvi var hreinlega óstöðvandi á báðum endum vallarins, skoraði 34 stig, tók 21 frákast og varði 5 skot.

Þessi magnaða tölfræði skilaði Tryggva heilum 50 framlagspunktum, sem er langhæsta framlag sem sést hefur frá einum leikmanni í undankeppni FIBA Europe fyrir heimsmeistarakeppni FIBA.

Fyrra metið var 37 framlagsstig, sem þeir Janis Strelniks frá Lettlandi,Edin Atic frá Bosníu og Giorgi Shermadini frá Georgíu deildu.

Stórkostleg frammistaða hjá Tryggva, og vonandi að hann nái að endurtaka leikinn þegar Ísland mætir Ítalíu ytra á sunnudaginn kemur.