Tindastóll vann öruggan sigur á Vestra, 88-107, er liðin mættust í Subway-deild karla á Ísafirði í kvöld.

Eftir jafnan fyrsta leikhluta þá skyldu liðin að í öðrum leikhluta sem Tindastóll vann 32-21. Þeir héldu áfram uppteknum hætti í seinni hálfleik og unnu þriðja leikhluta 31-23 en mest leiddu gestirnir með 33 stigum. Heimamenn löguðu stöðuna aðeins fyrir lokaflautið en niðurstaðan þægilegur 19 stiga sigur fyrir gestina að norðan.

Sigtryggur Arnar Björnsson átti stórleik fyrri Tindastól en hann skoraði 32 stig ásamt því að taka 5 fráköst og gefa 6 stoðsendingar. Javon Anthony Bess kom honum næstur með 27 stig og Ísafjarðartröllið Sigurður Gunnar Þorsteinsson bætti við 14 stigum og 8 fráköstum á sínum gamla heimavelli. Pétur Rúnar Birgisson lét einnig til sín taka en hann skoraði 12 stig og gaf 9 stoðsendingar.

Hjá Vestra var Marko Jurica bestur en hann skoraði 26 stig og var Vestri +2 á þeim rúmu 33 mínútum sem hann spilaði. Honum næstur kom Hilmir Hallgrímsson með 22 stig en það er það mesta sem hann hefur skorað í efstu deild. Ken-Jah Bosley bætti við 14 stigum og Vestfjarðatröllið Nemanja Knezevic endaði með þrennu, 12 stig, 19 fráköst og 11 stoðsendingar.

Tölfræði leiksins