Tindastóll tók á móti Stjörnunni í 1. deild kvenna í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í dag. Vegna veirunnar skæðu og veðurs hefur þurft að fresta mörgum leikjum núna í byrjun árs þannig að þetta var fyrsti meistaraflokksleikurinn sem fram fór á árinu í Síkinu.

Leikurinn byrjaði nokkuð jafnt en heimastúlkur leiddu eftir fyrsta fjórðunginn 22-17. Annar leikhluti var jafnari en byrjaði á sóknarvillu á gestina sem fengu svo á sig þrist í andlitið strax í næstu sókn og munurinn kominn í átta stig. Stjarnan náði svo ágætis kafla í lok leikhlutans og gestirnir náðu að klóra svolítið í forskotið en staðan í hálfleik var 42-38 fyrir Tindastól.

Stjarnan komst betur inn í leikinn í þriðja fjórðung og var komin með 5 stiga forskot um hann miðjan, 49-54. Stólastúlkur bitu þá í skjaldarrendur, lokuðu nánast fyrir aðgengi Stjörnunnar að körfunni og náðu að komast stigi yfir með 2 vítum frá Maddie, staðan 61-60 fyrir lokaátökin. Tindastóll byrjaði svo lokaleikhlutann með hvelli, settu fyrstu 5 stigin á 40 sekúndum og Stjarnan tók strax leikhlé. Maddie kom Tindastól í 8 stiga forystu strax eftir leikhléið og þann mun náðu Stjörnustúlkur aldrei almennilega að brúa þótt Elva Lára Sverrisdóttir hafi gert sitt til að halda spennu á lokamínútunni en hún skoraði átta síðustu stig gestanna. Lokatölur 84-77.

Madison Anne Sutton átti stórleik hjá liði Tindastóls, skoraði 43 stig og reif niður 29 fráköst að auki og skilaði 62 framlagspunktum sem verður að teljast nokkuð gott. Eva Rún Dagsdóttir bætti 17 stigum við en einungis 7 leikmenn tóku þátt í leiknum hjá hvoru liði fyrir sig. Hjá gestunum var Diljá stigahæst með 26 stig og Elva Lára bætti 20 við og var framlagshæst Stjörnustúlkna með 17 framlagspunkta.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Umfjöllun, myndir, viðtal / Hjalti Árna