Grindavík hefur ráðið Sverrir Þór Sverrisson til að þjálfa liðið í Subway deild karla samkvæmt fréttatilkynningu félagsins. Kemur hann í stað Daníels Guðna Guðmundssonar sem þjálfað hafði liðið síðustu tímabil. Sverri til halds og trausts verður Jóhann Þór Ólafsson.

Sverrir hefur áður þjálfað bæði kvenna og karlalið allra úrvalsdeildarfélaga á Suðurnesjum og unnið titla fyrir þau öll. Síðast þegar hann var í Grindavík gerði hann kvennalið þeirra að bikarmeisturum 2015, en með karlaliði þeirra vann hann Íslandsmeistaratitilinn 2013 og bikarmeistaratitilinn 2014.

Tilkynning:

Sverrir Þór Sverrisson hefur verið ráðinn þjálfari karlaliðs Grindavíkur og mun hann stýra liðinu út tímabilið. Jóhann Þór Ólafsson verður áfram aðstoðarþjálfari liðins og mun vinna náið með Sverri út tímabilið.


Þetta er í annað sinn sem Sverrir Þór stýrir liði Grindavíkur en hann gerði liðið að Íslandsmeisturunum tímabilið 2012-2013 og bikarmeisturunum árið 2014. Sverrir Þór þjálfaði einnig kvennalið Grindavíkur tímabilið 2015 og varð liðið bikarmeistari undir hans stjórn.


„Ég var ekki á leiðinni í þjálfun en þegar þetta tækifæri kom upp þá varð ég mjög spenntur. Eftir að hafa hugsað þetta vel og rætt við Jóhann Þór þá ákvað ég að kýla á þetta. Ég á mjög góðar minningar frá tíma mínum með Grindavík og hugsa að ég hefði ekki tekið við neinu öðru liði á þessum tímapunkti. Þetta tækifæri hreyfði við mér og er mjög spenntur að hefjast handa og hitta leikmannahópinn,“ segir Sverrir Þór.


Nýtt þjálfarateymi hitti leikmannahópinn núna síðdegis og stýrði Sverrir Þór sinni fyrstu æfingu. Fyrsti leikur Sverris með liðið verður föstudaginn 4. mars næstkomandi gegn Vestra í HS Orku Höllinni.
Velkominn “heim” Sverrir!
Áfram Grindavík!