Stjörnumenn tóku á móti KR-ingum í Mathús Garðabæjarhöllinni í gærkvöldi. Fyrir leik voru Garðbæingar í 6. sæti deildarinnar en KR-ingar sátu í því tíunda. KR-ingar höfðu hins vegar unnið síðustu fimm viðureignir liðanna, allt frá því að Stjarnan rótburstaði Vesturbæinga með 43 stigum haustið 2019.

Í fyrri hálfleik gærkvöldsins leit hins vegar allt út fyrir að Stjörnumenn myndu endurtaka leikinn frá 2019, því Garðbæingar réðu lögum og lofum á parketinu allan fyrri hálfleik. Gestirnir mættu hins vegar varla til leiks. Eftir fyrsta leikhluta var staðan 26-19, Garðbæingum í vil, og í hálfleik var forskotið komið í 21 stig, 57-36. KR-ingar gátu varla hitt hey í hlöðu, og hvað þá stoppað sóknir Stjörnumanna. Þá var Isaiah Manderson, nýjum leikmanni KR, vikið úr húsi með beina brottrekstrarvillu í lok fyrri hálfleiks, og þurftu KR-ingar því að gera sér að góðu að leika án Manderson út leikinn.

Eftir afar brösugan fyrri hálfleik bitu KR-ingar hins vegar í skjaldarrendur í þeim seinni og komu sér aftur inn í leikinn. KR-ingar unnu þriðja fjórðung með 9 stigum og var staðan því 70-58 Stjörnunni í vil fyrir lokaleikhlutann. Gestirnir náðu að halda því skriði áfram inn í fjórða leikhluta og minnkuðu muninn niður í fimm stig. 81-76, með þristi frá Birni Kristjánssyni þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir af leiknum. Nær komust gestirnir hins vegar ekki. Heimamenn náðu vopnum sínum að nýju síðustu þrjár mínútur leiksins og sigldu að lokum heim ellefu stiga sigri, 90-79.

Bestur

Robert Turner var einu sinni sem oftar mjög góður í liði Garðbæinga. Turner lauk leik með 27 stig og 10 fráköst með 50% skotnýtingu. Hjá KR var Björn Kristjánsson stigahæstur með 17 stig.

Framhaldið

Stjörnumenn sitja nú í fimmta sæti deildarinnar og virðast allt að því öruggir með sæti í úrslitakeppninni. KR-ingar sitja hins vegar áfram í tíunda sætinu, utan úrslitakeppninnar.

Næsti leikur Stjörnunnar er 4. mars þegar þeir fara í Síkið á Sauðárkróki og mæta Tindastól, en sama dag tekur KR á móti ÍR á Meistaravöllum.