Grindavík lagði Tindastól í HS Orku Höllinni í kvöld í Subway deild karla, 101-93. Eftir leikinn er Grindavík í 5. sæti deildarinnar með 16 stig á meðan að Tindastóll er í 7. sætinu með 14 stig.

Fyrir leik

Í fyrri umferð deildarinnar hafði Grindavík sigur á Tindastól í Síkinu þann 28. október, 77-86.

Gangur leiks

Það voru heimamenn í Grindavík sem náðu að vera skrefinu á undan á upphafsmínútum leiksins, leiða með 10 stigum eftir fyrsta leikhluta 34-24. Sá munur liðanna helst að miklu leyti til út fyrri hálfleikinn, en þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik leiða heimamenn með 7 stigum, 56-49

Atkvæðamestur í liði Tindastóls í fyrri hálfleiknum var Javon Bess með 15 stig, 2 fráköst og fyrir Grindavík Naor Sharon með 16 stig og 4 stoðsendingar.

Gestirnir hóta því margoft að jafna leikinn í upphafi seinni hálfleiksins. Komast 3 stigum næst heimamönnum í þriðja fjórðungnum, en staðan fyrir lokaleikhlutann er 84-78. Stólarnir halda áfram að hanga í heimamönnum í upphafi fjórða leikhlutans. Komast 4 stigum næst þeim, en undir lok leiksins nær Grindavík alltaf að halda þessu í tveggja eða þriggja körfu leik og sigra að lokum með 8 stigum, 101-93.

Kjarninn

Tindastóll var svo sannarlega aldrei langt undan heimamönnum í leik kvöldsins. Grindavík náði einfaldlega að setja fótinn á bensíngjöfina í hvert einasta skipti sem þeir komust of nálægt þannig að munurinn var nánast alltaf í kringum tvær til fjórar körfur. Grindvíkingar gerðu virkilega vel í að komast á línuna í leiknum, fá 30 víti á móti aðeins 17 hjá Stólunum og þá var nýting þeirra úr djúpinu frábær, 51% eða 15 af 29.

Atkvæðamestir

Naor Sharon var bestur í liði Grindavíkur í leiknum með 27 stig, 6 fráköst og 6 stoðsendingar. Honum næstur var EC Matthews með 26 stig, 5 fráköst og 5 stoðsendingar.

Fyrir Stólana var Javon Bess atkvæðamestur með 30 stig, 6 fráköst og 8 stoðsendingar. Þá bætti Taiwo Badmus við 24 stigum.

Hvað svo?

Næsti leikur Tindastóls er þann 10. febrúar heima í Síkin gegn Njarðvík á meðan að Grindavík á leik degi seinna þann 11. febrúar gegn Breiðablik í Smáranum.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Ingibergur Þór)