Tindastóll tók á móti toppliði Njarðvíkinga í Subway deild karla í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld. Stólar höfðu ekki unnið leik síðan 10. janúar og voru að spila í fyrsta skipti í Síkinu á þessu ári en Njarðvík hafði unnið síðustu þrjá leiki á sama tíma.


Tindastóll komst í 1-0 með víti frá Taiwo Badmus eftir 35 sekúndur. Yfirleitt er slíkt ekki í frásögur færandi en er þó þess virði að minnast á hér þar sem þetta var eina stigið sem nefndur Badmus skoraði í fyrri hálfleiknum öllum. Mikill barningur var milli liðanna í fyrsta leikhluta, heimamenn áttu skemmtilegar varnarrispur með Pétur Rúnar í fararbroddi en duttu þess á milli niður. Gestirnir voru jafnari í sínum leik og þó ákafi heimamanna hafi slegið þá aðeins út af laginu þá leiddu grænklæddir með tveimur stigum eftir fyrsta fjórðung 20-22.  Í öðrum leikhluta voru gestirnir þó klárlega sterkara liðið og gamalkunnur stirðleiki tók sig upp í sókn Tindastólsliðsins sem setti ekki nema 16 stig á töfluna í fjórðungnum og staðan 36-44 í hálfleik.


Sögulega séð hefur 3. leikhluti oft verið erfiður hjá Tindastólsliðinu en þeir komu ákveðnir inn á parketið í seinni hálfleik í kvöld og hófu að saxa á forskot Njarðvíkinga. Javon Bess leiddi áhlaupið með 2 góðum þristum úr horninu og Benni tók leikhlé þegar Siggi Þorsteins setti líka niður þrist og Taiwo tók svo muninn niður í 1 stig 47-48 með góðu sniðskoti og fékk víti að auki.  Taiwo setti svo vítið og baráttuglaðir heimamenn héldu áfram að þjarma að Njarðvíkingum. Leikurinn var jafn og skemmtilegur og þristarnir hans Loga úr horninu mikilvægir hjá gestunum. Pétur Rúnar kom heimamönnum í forystu 73-71 með góðum þrist þegar um sex og hálf mínúta lifðu leiks en Basile jafnaði fljótt og svo var eins og botninn dytti úr leik heimamanna síðustu 5 mínúturnar. Njarðvík hélt áfram að spila agaðan sóknarleik og enduðu flest allar sínar sóknir með vel völdum og góðum skotum en það er erfitt að lýsa því sem fram fór hinumegin á vellinum öðruvísi en að það hafi verið vandræðalegt. Njarðvík vann þennan lokakafla 11-23 og sigldu heim þægilegum sigri en vonleysið í Síkinu var áþreifanlegt.


Arnar Björns og Javon Bess voru atkvæðamestir heimamanna en frammistaða Badmus var ekki til útflutnings. Liðið í heild virkar frekar áhugalaust nema í sprettum og verður að segjast að því er illa stjórnað. Zoran Vrkic er ekki að falla inn í leik liðsins ennþá enda virðist ekki vera spilað upp á hans styrkleika í sóknarleiknum, sem hefur reyndar verið lélegur í allan vetur.  Gestirnir úr Njarðvík sýndu agaðan og vel skipulagðan leik þar sem 5 leikmenn setti 10 stig eða fleiri á töfluna og DD Basile flest þeirra eða 20 og hann bætti við 10 stoðsendingum og 7 fráköstum í frábærum leik.

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

Umfjöllun, myndir / Hjalti Árna