Snæfell fékk Tindastól í heimsókn í sannkölluðum landsbyggðarslag í 1. deild kvenna.
Liðin eru frekar ólík þar sem Snæfell teflir fram blönduðu liði með kempum í bland við ungar stelpur. Stólarnir hins vegar tefla fram ungu og efnilegu liði. Fyrir leikinn voru Snæfell í 3. sæti deildarinnar með 16 stig en Tindastóll í 8. sæti með 10 stig. Inga Sól mætti á sinn gamla heimvöll en hún gekk til liðs við Tindastól um áramótin.

Gangur leiksins

Heimakonur voru með undirtökin í leiknum nánast allan leikinn fyrir utan allra fyrstu mínúturnar. Snæfell spilaði stífa vörn og áttu gestirnir erfitt með að skora í kringum körfuna þar sem Preslava var fyrirferðamikil í hjálparvörninni. Í sókninni hjá Snæfell voru það Rebekka og Vaka sem voru að hitta vel. Hjá gestunum kom Anna Karen sterk inn af bekknum og var stigahæst í hálfleik. Madison átti erfitt uppdráttar og var hún tvídekkuð í gríð og erg. Staðan var 40 – 26 í hálfleik og leikurinn í ágætis jafnvægi fyrir heimakonur. Í síðari hálfleik áttu liðin erfitt með að skora en þegar 5 og hálf mínúta var liðin af 3. leikhluta höfðu liðin skorað 10 stig samanlagt. Gestirnir bitu frá sér og þegar 2 mínútur lifðu af 3. leikhlutanum þá var munurinn kominn í 6 stig, Snæfell gerði lítið annað en að fá ódýrar villur á sig. Frábær kafli hjá Tindastól sem virtist algjörlega slá Snæfell út af laginu og skoruðu heimakonur aðeins 4 stig í leikhlutanum á móti 14 frá Tindastól. Munurinn því 4 stig þegar síðasti leikhlutinn byrjaði. Fjórði leikhlutinn var í járnum fram að síðustu andartökunum, það var Preslava sem setti leikinn á ís með stórum þrist þegar um 30 sekúndur voru eftir af leiknum.

Kjarninn

Leikurinn var í góðu jafnvægi allan leikinn og var það í raun og veru stirður sóknarleikur Snæfells og góður varnarleikur Tindastóls í þriðja leikhluta sem gerði það að verkum að leikurinn var jafn í lokinn. Sianna, erlendur leikmaður Snæfells, lýkur nú þriggja leikja banni sínu og fara Snæfellingar nokkuð vel út úr því banni með þrjá sigra í þremur leikjum. Snæfell gerðu virkilega vel í því að stoppa Madison í leiknum og átti hún í stökustu vandræðum með skora og losa boltann á móti grimmri vörn Snæfells.

Atkvæðamestar


Snæfell:
Rebekka Rán 24/5/5
Vaka 12/3
Preslava 11/9

Tindastóll:
Madison 16/28
Anna Karen 15 stig
Inga Sólveig og Eva Rún 8 stig

Framundan hjá liðunum

Snæfell fær Vestra í heimsókn í annan landsbyggðarslag og Tindastóll fær Þór Akureyri í heimsókn í sannkölluðum nágrannaslag.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Sumarliði Ásgeirsson)

Umfjöllun / Gunnlaugur Smárason