Breiðablik lagði Tindastól í Smáranum í kvöld í Subway deild karla, 107-98. Eftir leikinn er Tindastóll í 7. sæti deildarinnar með 14 stig á meðan að Breiðablik er í 9. sætinu með 12 stig.

Fyrir leik

Tindastóll hafði sigur í fyrri leik liðanna þann 21. október í Síkinu, 120-117. Í leikmannahóp Blika vantaði hinn bandaríska Sam Prescott vegna meiðsla, en hann hefur skilað 17 stigum, 7 fráköstum og 2 stoðsendingum að meðaltali í leik fyrir þá í vetur.

Gangur leiks

Líkt og svo mörg kvöld í Smáranum í vetur fór leikur kvöldsins fjörlega af stað. Everage Lee fór fyrir heimamönnum með 14 stigum í fyrsta leikhlutanum á meðan að Sigtryggur Arnar setti 10 fyrir Stólana, en staðan eftir fyrsta fjórðung var 28-24 fyrir heimamenn. Blikar ná svo að vera skrefinu á undan í öðrum leikhlutanum. Koma forystu sinni mest í 8 stig í fjórðungnum, en þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik er staðan 57-49.

Stigahæstur heimamanna í fyrri hálfleik var Everage Lee Richardson með 24 stig á meðan að Sigtryggur Arnar Björnsson var með 15 fyrir Stólana.

Seinni hálfleikinn ná heimamenn að hefja með sömu orku og þeir luku þeim fyrri. Bæta enn við forystu sína í þriðja leikhlutanum þar sem gestirnir líta síst líklegir til þess að koma nokkrum vörnum við. Forskot Breiðabliks mest 14 stig í fjórðungnum, en með smá herkjum ná Stólarnir að koma því niður í 8 stig fyrir þann fjórða, 79-71. Þrátt fyrir að hafa misst tvo af sínum mikilvægari leikmönnum útaf með fimm villur, Sigurð Pétursson í lok þess þriðja og Hilmar Pétursson í fyrri hluta þess fjórða, ná Blikar að sigla nokkuð þægilegum 9 stiga sigur í höfn, 107-98.

Tölfræðin lýgur ekki

Tindastóll tapaði 21 bolta í leiknum sem gáfu Blikum 30 stig. Blikar hinsvegar tapa aðeins 12 boltum sem þeir leyfa aðeins 7 stig af.

Atkvæðamestir

Everage var besti leikmaður vallarins í kvöld. Setti 44 stig, tók 4 fráköst og gaf 4 stoðsendingar, en 44 stig er það hæsta sem leikmaður hefur sett í einum leik í deildinni í vetur. Næst framlagshæstur var Sigurður Pétursson með 13 stig og 15 fráköst á 26 mínútum spiluðum.

Fyrir Stólana var Zoran Vrkic atkvæðamestur með 23 stig og 10 fráköst. Þá bætti Pétur Rúnar Birgisson við 15 stigum, 10 fráköstum og 9 stoðsendingum.

Hvað svo?

Tindastóll á leik næst þann 10. febrúar gegn Njarðvík í Síkinu á meðan að Breiðablik tekur á móti Grindavík degi seinna, 11. febrúar.

Tölfræði leiks