Breiðablik lagði Hauka í Ólafssal í kvöld í Subway deild kvenna, 90-97. Eftir leikinn eru Haukar í 4. sæti deildarinnar með 16 stig á meðan að Breiðablik er í 6. sætinu með 10 stig.

Fyrir leik

Liðin höfðu fyrir leik kvöldsins mæst einu sinni áður í deildinni á tímabilinu. Þann 23. janúar höfðu Haukar mjög öruggan sigur á Blikum í Smáranum, 70-97.

Þar sem að leikur kvöldsins var frestaður gat bandarískur leikmaður Hauka Keira Robinson ekki tekið þátt í kvöld, en það munaði um minna fyrir Hauka, Keira skilað 25 stigum, 10 fráköstum og 6 stoðsendingum að meðaltali í leik fyrir þær síðan hún kom til liðsins í janúar.

Í lið Breiðabliks vantaði einnig Önnu Soffíu Lárusdóttur, en hún hefur verið að skila 11 stigum og 4 fráköstum fyrir þær að meðaltali í leik í vetur.

Gangur leiks

Heimakonur í Haukum fóru betur af stað í leik kvöldsins. Ná að vera skrefinu á undan á upphafsmínútunum, eru 7 stigum yfir þegar að fyrsti leikhluti er á enda, 27-20. Blikar gera vel undir lok fyrri hálfleiksins að missa heimakonur ekki of langt frá sér, en munurinn 6 stig þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 50-44.

Stigahæst Hauka í fyrri hálfleik var Helena Sverrisdóttir með 12 stig á meðan að Michaela Kelly var með 20 stig fyrir Blika í hálfleiknum.

Breiðablik gera sig líklegar til þess að jafna leikinn í þriðja leikhlutanum. Eiga nokkur góð áhlaup í fjórðungnum en munurinn er þó enn 5 stig þegar leikhlutinn er á enda, 75-70. Með góðu 6-0 áhlaupi nær Breiðablik að komast yfir á fyrstu mínútum lokaleikhlutans, 75-76. Leikurinn er svo í járnum alveg fram á lokamínúturnar. Þá siglir Breiðablik frammúr og vinnur að lokum með 7 stigum, 90-97.

Tölfræðin lýgur ekki

Breiðablik gjörsamlega jarðaði frákastabaráttuna í leik kvöldsins. Mikið munaði þar um þau 17 sem Isabella Ósk Sigurðardóttir tók, en í heildina tók Breiðablik 54 fráköst á móti 28 fráköstum Hauka.

Atkvæðamestar

Fyrir heimakonur í Haukum var Helena Sverrisdóttir atkvæðamest með 19 stig, 8 fráköst og 10 stoðsendingar. Henni næst var Tinna Guðrún Alexandersdóttir með 13 stig og 7 stoðsendingar.

Fyrir Blika var það Michaela Kelly sem dró vagninn með 39 stigum, 8 fráköstum og 8 stoðsendingum. Þá bætti Isabella Ósk Sigurðardóttir við 16 stigum og 17 fráköstum.

Hvað svo?

Bæði lið eiga leik næst þann 16. febrúar. Breiðablik heimsækir Keflavík í Blue Höllina á meðan að Haukar fá Íslandsmeistara Vals í heimsókn.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Bára Dröfn)