Stjörnumenn tóku á móti Keflavík í Mathús Garðabæjarhöllinni í kvöld í Subway deild karla. Fyrir leik voru heimamenn í sjöunda sæti deildarinnar en gestirnir sátu í toppsætinu.

Sá stöðumunur sást vel í fyrsta leikhluta. Eftir jafna byrjun tóku gestirnir úr Keflavík öll völd á vellinum og voru fljótlega komnir 13 stigum yfir, 26-13. Staðan í lok fyrsta fjórðungs var 27-16, gestunum í vil.

Stjörnumönnum varð ekkert ágengt í að minnka muninn í öðrum leikhluta. Keflvíkingar náðu að svara um leið og heimamenn gerðu sig líklega til að koma sér aftur inn í leikinn, og hélst ellefu stiga forskot gestanna í hálfleik, 39-50.

Garðbæingar byrjuðu seinni hálfleik af fítonskrafti og áður en 3 mínútur voru liðnar af seinni hálfleik höfðu þeir jafnað leikinn með 11-0 áhlaupi, 50-50. Keflvíkingum tókst ekki að svara þessu áhlaupi sem skyldi og höfðu því aðeins eins stigs forskot fyrir lokafjórðunginn, 66-67.

Stjörnumenn leiddu nánast allan fjórða leikhluta, þó aldrei með meira en sjö stigum í senn. Þegar tæp mínúta var eftir af leiknum upphófst svo ótrúleg atburðarás. Heimamenn leiddu með þremur stigum, 88-85, eftir tvö vítaskot frá Robert Turner. Keflavík fær boltann, en Darius Tarvydas hitti ekki úr þrist. Robert Turner náði frákastinu, þegar tíu sekúndur lifðu leiksins, og allt útlit fyrir Stjörnusigur. Þá stígur Hilmar Smári Henningsson hins vegar út af, og gestirnir fá boltann aftur, og tækifæri til að jafna leikinn. Hlynur Bæringsson fær þá dæmda á sig óíþróttamannslega villu fyrir brot á CJ Burks, og Keflavík því með pálmann í höndunum, tvö vítaskot og fá boltann aftur með tækifæri á að vinna leikinn. Burks klikkar hins vegar á báðum skotunum, og Keflavík því þremur stigum undir. Boltinn berst á Dominykas Milka, sem tekur í gikkinn fyrir utan þriggja stiga línuna með Hlyn í andlitinu. Að sjálfsögðu fór skotið ofan í, og Keflavík kom leiknum í framlengingu á ótrúlegan hátt.

Í framlengingunni sýndu Stjörnumenn hins vegar stáltaugar. Eftir gríðarlega svekkjandi endi á venjulegum leiktíma héldu Garðbæingar haus og með Robert Turner í broddi fylkingar lönduðu þeir frábærum sigri á toppliðinu, lokatölur 98-95.

Bestur

Robert Turner III var yfirburðamaður á vellinum í kvöld. Turner lauk leik með 42 stig, 15 fráköst og 6 stoðsendingar og var allt í öllu í liði heimamanna.

Framhaldið

Stjörnumenn spila næst gegn Þór Akureyri á Akureyri 28. janúar næstkomandi. Kvöldið áður spilar Keflavík við ÍR á heimavelli.