Fyrir leik Þórs og Tindastóls bjuggust flestir við jöfnum og spennandi leik þar sem bæði lið myndu bjóða upp á allt sem góður körfuboltaleikur gæti boðið upp á og það gekk svo sannarlega eftir.

Það voru gestirnir sem byrjuðu leikinn betur og eftir fjögurra mínútna leik höfðu þeir sjö stiga forskot 7:14 en í kjölfarið kom 8:0 kafli Þórs og staðan 15:14 eftir sex og hálfa mínútu. Gestirnir jafna 15:15 en Þórsarar voru sterkari það sem eftir lifði fyrsta leikhluta og leiddu með fjórum stigum að honum loknum 26:22.

Eftir nærri þriggja mínútna leik komust gestirnir yfir 31:32 en Þór kemst aftur yfir 34:32. Jafnt var á með liðunum það sem eftir lifði fyrri hálfleiks en gestirnir unnu leikhlutann með fimm stigum 20;25 og leiddu í hálfleik með einu stigi 46:47.

Í fyrri  hálfleik var Reggie komin með 13 stig, Bouna 11 og Dúi Þór 10. Hjá gestunum var Taiwo með 20 stig, Javon 11 og Sigtryggur Arnar 8.

Í þriðja leikhluta var Þór fetinu á undan gestunum eða allt fram yfir miðja leikhlutann að gestirnir jafna 61:61. Þarna nær Tindastóll aftur yfirhöndina í leiknu og leiða með tveimur stigurm þegar innan við mínúta lifði af leikhlutanum 68:70. Í kjölfarið koma sex stig frá gestunum sem leiða með átta stigum 68:76 þegar lokakaflinn hófst.

Á lokakaflanum gekk allt upp hjá gestunum og á sama tíma gekk fátt upp hjá Þór. Það var ekki til að hjálpa að Dúi var rekinn úr húsi á fjórðu mínútu leikhlutans. Að missa jafn sterkan leikmann af velli og Dúa vegur þungt en í þessu tilfelli réði það ekki úrslitum, Dúi kemur sterkari til baka.

Tindastóll var sterkari á lokasprettinum og sigurinn verðskuldaður en Þórsarar geta gengið stoltir frá þessum leik í kvöld vantaði bara herslumuninn á lokametrum leiksins. Baráttan heldur áfram.

Framlag leikmanna Þórs: Bouna 32/6/0, Reggie 24/14/3, Kolbeinn Fannar 13/6/1, Dúi Þór 12/3/6, Ragnar 6/5/0, Baldur Örn 2/3/0, Eric 2/3/0. Að auki spiluðu þeir Smári og Ólafur en þeim tókst ekki að skora.

Framlag leikmanna Tindastóls: Anthony Bess 34/7/0, Taiwo 30/7/2, Sigtryggur Arnar 15/3/7, Pétur Rúnar 7/7/11, Sigurður Þorsteins 6/5/2, Viðar 5/1/0, Helgi Rafn 4/3/1.

Texti og mynd: Palli Jóh. Spyrill í viðtölum Guðmundur Ævar Oddsson.

Tölfræði leiks