ÍR-ingar tóku á móti Stjörnunni í Subway deild karla í kvöld. Fyrir leikinn sátu Breiðhyltingar í fallsæti eftir tap gegn Vestra í síðustu umferð. Stjörnumenn sátu hins vegar í sjöunda sæti.

ÍR-ingar mættu heldur betur gíraðir til leiks og virkuðu staðráðnir í því að koma sér úr fallsæti. Stjörnumenn gátu hins vegar ekki keypt sér körfu í fyrsta fjórðung, en seldu þær hins vegar á tombóluafslætti. Þegar 7 mínútur voru liðnar af leiknum var staðan 20-4 fyrir ÍR, og eftir einn leikhluta var hún 27-10. Gestirnir einfaldlega ekki mættir leiks nema að nafninu til.

Stjörnumenn bitu hins vegar verulega í skjaldarrendur í öðrum fjórðung. Loksins byrjaði boltinn að rata ofan í hringinn hjá Garðbæingum sem hófu að grafa sig upp úr þeirri djúpu holu sem grafin hafði verið í byrjun leiks. Í hálfleik munaði 7 stigum á liðunum, 45-38.

ÍR-ingar juku forskotið hægt og bítandi aftur í þriðja leikhluta og var staðan 56-41 um miðbik fjórðungsins. Stjörnumenn svöruðu hins vegar með frábæru 17-8 áhlaupi og eftir þrist frá Shawn Hopkins í lok þriðja leikhluta munaði 6 stigum á liðunum, 64-58.

Stjörnumenn byrjuðu fjórða leikhluta með látum, og náðu mjög fljótt að éta upp forskot heimamanna. Stjörnumenn náðu forystunni í leiknum þegar stutt var liðið af fjórðungnum í stöðunni 69-66, en það var í fyrsta sinn sem Stjarnan hafði leitt leikinn síðan í stöðunni 0-2. Augnablikið virtist algerlega vera með Garðbæingum á þessum tímapunkti, 11-2 áhlaup í gangi og holan sem hafði verið grafin í fyrsta fjórðungi var farin að minna frekar á hól. Þá mættu ÍR-ingar hins vegar til baka, sóttu skófluna aftur og hófust handa við að rústa hólnum. Í upphafi skyldi endann skoða sagði einhver, og átti það vel við í TM hellinum í kvöld, því síðustu mínúturnar rúlluðu heimamenn yfir Garðbæinga og unnu loks 11 stiga sigur, 88-77.

Lykill

Lykillinn er í fyrirsögninni, ÍR byrjaði leikinn ákaflega sterkt og endaði hann eins. Breiðhyltingar sneru taflinu við úr stöðunni 69-66 og unnu ellefu stiga sigur.

Bestur

ÍR fékk frekar jafnt framlag frá sínum leikmönnum. Stigahæstur heimamanna var Igor Maric með 24 stig, en Collin Pryor kom næstur með 20. Hjá Garðbæingum var David Gabrovsek stigahæstur með 16 stig.

Framhaldið

ÍR-ingar komast með sigrinum upp úr fallsæti og mæta næst Breiðabliki þann 21. janúar á heimavelli. Stjörnumenn sitja í sjöunda sæti deildarinnar, og mæta næst Keflvíkingum í Mathús Garðabæjar höllinni, sama kvöld, 21. janúar.