Álftanes hefur samið við framherjann Sinisa Bilic um að leika með liðinu á yfirstandandi tímabili í fyrstu deild karla. Staðfestir félagið þetta á samfélagsmiðlum rétt í þessu.

Sinisa kemur til liðsins frá Subway deildar liði Breiðabliks, en þar skilaði hann 18 stigum og 7 fráköstum að meðaltali í leik þangað til að hann yfirgaf félagið þann 1. desember síðastliðinn.

Sinisa kom fyrst til Íslands árið 2019 og hefur síðan þá leikið fyrir Tindastól, Val og eins og nefnt var Breiðablik.

Formaður Álftanes Huginn Freyr Þorsteinsson hafði þetta að segja um komu Sinisa til félagsins:

„Þetta er mikill liðsstyrkur fyrir okkur en Bilic kemur með dýrmæta reynslu inn í öflugan hóp okkar. Körfuboltinn á Álftanesi hefur virkilega vaxið á síðustu árum og innkoma Bilic hjálpar við að styrkja okkar starf sem er það mikilvægasta.“