Ármann lagði Þrótt í Vogum í kvöld í toppslag 2. deildar karla, 79-101.

Eftir leikinn sem áður er Ármann í efsta sæti deildarinnar, með tíu sigra og ekkert tap það sem af er tímabili. Þróttur er hinsvegar í öðru sætinu. Með sjö sigra og tvö töp á tímabilinu, en þau komu bæði gegn Ármann, en í fyrri leiknum hafði Ármann einnig sigur í öllu jafnari leik.

Gangur leiks

Ármenningar byrjuðu leik kvöldsins betur. Voru snöggir að byggja sér upp forskot á upphafsmínútum leiksins og leiddu með 8 stigum þegar fyrsti leikhluti var á enda. Heimamenn í Þrótti gera vel að missa þá ekki mikið lengra frá sér en þeir gerðu undir lok fyrri hálfleiksins, en þegar að liðin hald a til búningsherbergja í hálfleik er staðan 33-48 Ármanni í vil.

Áfram gerir Þróttur vel að halda í við í upphafi seinni hálfleiksins, en lítið gekk þó hjá þeim að komast nær en 8-12 stigum í þriðja leikhlutanum. Forysta Ármanns ennþá 12 stig fyrir lokaleikhlutann, 55-67. Í þeim fjórða gerir Ármann svo endanlega útum leikinn, bæta hægt og rólega við forskot sitt og sigra að lokum með 22 stigum, 79-101, en mesti munur þeirra á lokamínútunum voru 25 stig.

Kjarninn

Leikmenn vantaði í bæði lið kvöldsins vegna sóttkvíar og einangrunar. Leikurinn var þó hin besta skemmtun þar sem að liðin tókust nokkuð hart á, en bæði lið hafa á að skipa mörgum hæfileikaríkum leikmönnum sem margir hverjir eiga fullt erindi í hærri deildir.

Bestu leikmenn Ármanns í leiknum voru Gunnar Ingi Harðarson og Snjólfur Björnsson, sem skiptust á að ná í körfur og leiða baráttu sinna manna. Þá voru þeir mikilvægir þristarnir sem Oddur Birnir Pétursson negldi niður fyrir Ármenninga í seinni hálfleiknum. Hjá Þrótti var nýr leikmaður Gabríel Sindri Möller virkilega sprækur og verður hann þeim án efa mikilvægur þegar leikar harðna með vorinu. Þá skiluðu Nökkvi Már Nökkvason og Arnór Ingi Ingvason einnig mikilvægu framlagi fyrir Þrótt, og Íslandsmeistarinn í póker Guðmundur Auðun Gunnarsson var líflegur fyrir þá í seinni hálfleiknum eftir afleita byrjun á leiknum.

Hvað svo?

Ármann á leik næst komandi sunnudag 16. janúar gegn b liði Fjölnis á meðan að Þróttur leikur næst þann 20. janúar gegn sama liði.

Stigaskor

Þróttur: Nökkvi Már 27, Gabríel Möller 15, Guðmundur Ólafs 10, Brynjar Bergmann 8, Kjartan Steinþórs 7, Guðmundur Auðun 5, Arnór Ingi 4 og Hinrik Guðbjarts 3.

Ármann: Gunnar Ingi 31, Sjólfur Björns 20, Kristófer Már 14, Oddur Birnir 13, Skúli Gunnars 10, Illugi Steingríms 9 og Gunnar Örn 4.