Njarðvík lagði heimamenn Þór í Þorlákshöfn í kvöld í Subway deild karla. Eftir leikinn eru liðin jöfn að stigum í 2.-3. sæti deildarinnar með 16. Njarðvík er þó sætinu ofar vegna innbyrðisviðureignar, en þeir unnu Þór fyrir áramót með 25 stigum í Ljónagryfjunni.

Gangur leiks

Heimamenn í Þór byrja leik kvöldsins nokkuð betur en Njarðvík. Njarðvíkingar þó fljótir að taka við sér og eru 3 stigum yfir eftir fyrsta leikhluta, 22-25. Í öðrum leikhlutanum byggir Njarðvík svo aðeins ofan á þá forystu, komast mest 10 stigum yfir, en Þórsarar gera vel í að loka gatinu og er munurinn aðeins 2 stig þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 47-49.

Atkcæðamestur heimamanna í fyrri hálfleiknum var Glynn Watson með 19 stig á meðan að Nico Richotti dró vagninn fyrir gestina með 16 stigum.

Í upphafi seinni hálfleiksins keyra gestirnir úr Njarðvík aftur framúr heimamönnum, ná mest 15 stiga forystu í þriðja leikhlutanum, en munurinn fyrir þann fjórða er 9 stig, 68-77. Njarðvík gerir svo ansi vel í fjórða leikhlutanum, sigla forystu sinni mest í 20 stig og sigra að lokum mjög svo þægilega, með 17 stigum, 92-109.

Kjarninn

Eftir agalegan leik á móti Stjörnunni í síðustu umferð nær Njarðvík í góðan sigur gegn ríkjandi Íslandsmeisturum í kvöld. Nokkuð sveiflukennt hjá þeim þessa dagana, en fyrir Stjörnutapið höfðu þeir unnið topplið Keflavíkur heima. Eftir afleitan leik frá Nico Richotti og Fotios Lampropoulos á móti Stjörnunni fá þeir frábæran leik frá þeim í kvöld. Nokkuð augljóst að ætli Njarðvík sér að vinna leiki, þurfa þeir tveir að skila sínu.

Tapið gerir það að verkum að Þórsarar hafa tapað þremur af síðustu fimm leikjum. Þar af hafa tveir þeirra komið á frekar sterkum heimavelli þeirra í Þorlákshöfn. Gífurlega hæfileikaríkt lið sem Þór teflir fram þetta tímabilið, svo það er kannski ekki hægt að hringja viðvörunarbjöllunum strax, en haldi þetta svona áfram þarf allavegana að íhuga það.

Atkvæðamestir

Fyrir Njarðvík var Dedrick Basile atkvæðamestur með 24 stig, 8 fráköst og 9 stoðsendingar. Þá bætti Nico Richotti við 28 stigum. Fyrir Þór var Glynn Watson nánast sá eini með lífsmarki, skilaði 33 stigum og 6 stoðsendingum og Daniel Mortensen bætti við 24 stigum.

Hvað svo?

Samkvæmt skipulagi er næsti leikur Þórs þann 20. janúar gegn Vestra á Ísafirði. Sama dag á Njarðvík næst leik gegn Þór Akureyri heima í Ljónagryfjunni.

Tölfræði leiks