Keflavík lagði granna sína úr Njarðvík nokkuð þægilega í kvöld í Subway deild kvenna, 63-52. Eftir leikinn er Njarðvík í öðru sæti deildarinnar með 18 stig á meðan að Keflavík er í fjórða sætinu með 10 stig.

Liðin höfðu fyrir leik kvöldsins mæst í eitt skipti áður á tímabilinu í Subway deildinni, en þann 3. nóvember vann Njarðvík sigur á Keflavík í Ljónagryfjunni, 77-70.

Gangur leiks

Heimakonur í Keflavík opna leikinn á laglegu 9-0 áhlaupi. Njarðvík nær þó áttum fljótlega í fyrsta leikhlutanum, en eru þó 6 stigum undir eftir fjórðunginn, 15-9. Í öðrum leikhlutanum nær Njarðvík svo að vinna niður forystu heimakvenna, fá nokkra þrista til þess að detta gegn svæðisvörn Keflavíkur og eru komnar yfir þegar 3 mínútur eru eftir af hálfleiknum, 23-24. Það eru þó heimakonur sem leiða með minnsta mun mögulegum þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 29-28.

Atkvæðamest fyrir Njarðvík í fyrri hálfleiknum var Lára Ösp Ásgeirsdóttir með 11 stig á meðan að fyrir heimakonur var það Daniela Wallen Morillo sem dró vagninn með 9 stigum og 3 fráköstum.

Í upphafi seinni hálfleiksins lokar Keflavík öllu á varnarhelmingi vallarins. Halda Njarðvík í aðeins 5 stigum í þriðja leikhlutanum og leiða með 14 stigum fyrir þann fjórða, 47-33. Í lokaleikhlutanum gerir Njarðvík heiðarlega tilraun til þess að vinna niður forystu Keflavíkur, komast 6 stigum næst þeim um miðjan leikhlutann. Lengra komast þær þó ekki og Keflavík sigrar að lokum með 11 stigum, 63-52.

Tölfræðin lýgur ekki

Sóknarlega var betra flæði í leik Keflavíkur heldur en Njarðvíkur í kvöld. Þær gefa næstum helgingi fleiri stoðsendingar heldur en þær í leiknum, 19 á móti 11 Njarðvíkur.

Atkvæðamestar

Fyrir Keflavík var Daniela Wallen Morillo atkvæðamest með 20 stig og 9 fráköst. Þá bætti Anna Ingunn Svansdóttir við 10 stigum og 4 fráköstum.

Fyrir Njarðvík var Aliyah A’taeya Collier atkvæðamest með 14 stig, 16 fráköst og Lára Ösp Ásgeirsdóttir bætti við 12 stigum og 3 fráköstum.

Hvað svo?

Samkvæmt skipulagi eiga bæði lið leik næst komandi miðvikudag 19. janúar, Njarðvík heima í Ljónagryfjunni gegn Fjölni og Keflavík tekur á móti Haukum í Blue Höllinni.

Tölfræði leiks

Myndasafn (SBS)