KR lagði Grindavík í kvöld í Subway deild karla, 83-81. Eftir leikinn er Grindavík í 5. sæti deildarinnar með 14 stig á meðan að KR er í 9. sætinu með 12 stig.

Hérna er meira um leikinn

Karfan spjallaði við Daníel Guðmundsson þjálfara Grindavíkur eftir leik í Vesturbænum.

Þetta byrjar illa, 11-0, en þið náið svo ágætum tökum á leiknum og leiðið með í kringum 10 stig fram í fjórða…hvað gerist síðan, hvað breytist þarna?

Mér fannst þeir bara vera að ýta okkur út úr okkar aðgerðum síðust 13 mínúturnar eða svo. Þeir voru svo að opna okkur varnarlega og Dani Koljanin kom bara og setti 14 stig í fjórða leikhluta hjá þeim, hann gerði bara mjög vel eftir að hafa ekki skorað stig í leiknum fram að því. Við hefðum bara þurft að sýna meiri ákafa og tækla þetta betur.

Akkúrat. Þið takið 50 fráköst á móti 28 í leiknum en tapið samt leiknum…maður sér það kannski ekki mjög oft…

Nei…við töpuðum líka 17 boltum sko…

Já, það kemur á móti, skotnýtingin var heldur ekkert sérstök og sóknin var ansi hæg fannst mér í seinni hálfleik á löngum köflum…eins og þið hélduð að þið hefðuð mínútu á skotklukkunni eða eitthvað…

Sammála því, við vorum mjög hægir í okkar aðgerðum sóknarlega og boltinn var ekki að flæða nægilega vel. Það er hlutur sem við þurfum að einbeita okkur að að laga.

Akkúrat. Nú eruði með nýjan leikmann, Javier Creus, hvaðan er hann?

Hann er frá Spáni og er kominn til að bakka Ivan og Óla upp svo við getum róterað aðeins í framherjastöðunum og gefið þeim hvíld. Það er bara mjög gott að fá hann, hann reif niður einhver 7 fráköst hér í kvöld sem var bara fínt.

Einmitt, hann getur leyst fjarka og fimmu…en hvernig er hann sóknarlega?

Hann er með ágætis skot og getur alveg klárað þarna niðri. Hann er kannski ekki okkar fyrsti kostur sóknarlega en hann kann alveg körfubolta.

Hvernig líst þér á framhaldið svo hjá ykkur?

Við þurfum allaveganna að fara að sækja einhverja sigra…þetta er ekki að ganga nægilega vel hjá okkur…

…neinei…þið hafið verið svolítið ýmist í ökkla eða eyra í vetur…í þessum leik var þetta hins vegar kannski svolítil blanda, ágætis kaflar en ansi dapurt á milli?

Já, við sýndum góða orku og vorum helvíti öflugir á tímabili en svo fjaraði undan þessu. Við vorum bara ekki nógu skilvirkir, hvorki í vörn né sókn hérna síðustu 13 mínúturnar eða svo.