ÍR lagði heimamenn í Keflavík í kvöld í Subway deild karla, 77-94. Eftir leikinn er Keflavík í efsta sæti deildarinnar með 20 stig á meðan að ÍR er í 8. sætinu með 12 stig.

Fyrri leikur liðanna

Í fyrri umferð Subway deildarinnar hafði Keflavík sigur á ÍR í Hellinum í Breiðholti, 73-89.

Munar um minna

Í bæði lið vantaði mikilvæga leikmenn í kvöld. Hjá Keflavík var Valur Orri Valsson að jafna sig á nefbroti síðan úr leik Keflavíkur og Stjörnunnar og hjá ÍR var Sæþór Elmar Kristjánsson fjarri góðu gamni vegna heimsfaraldurs Covid-19.

Gangur leiks

Eftir nokkuð fjörlega byrjun gestanna nær Keflavík smávegis tökum á leiknum í lok fyrsta leikhlutans, en munurinn er 6 stig þegar fjórðungurinn er á enda, 27-21. Þrátt fyrir heiðarlega atlögu ÍR ná heimamenn að halda forystunni, en munurinn er enn 7 stig þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 49-42.

Stigahæstur fyrir Keflavík í fyrri hálfleiknum var Jaka Brodnik með 17 stig á meðan að Igor Maric hafði skorða mest fyrir ÍR, 16 stig.

ÍR nær á upphafsmínútum seinni hálfleiksins að skera niður forystu heimamanna og komast loks yfir með þrist frá Jordan Semple þegar tæpar fimm mínútur eru liðnar af þriðja leikhlutanum, 54-55. Undir lok fjórðungsins ganga þeir enn frekar á lagið og ná að vera skrefinu á undan fyrir lokaleikhlutann, 62-66. Í þeim fjórða gerði ÍR svo virkilega vel, ná að byggja enn frekar á forystu sína og sigra leikinn að lokum með 17 stigum, 77-94.

Tölfræðin lýgur ekki

Keflvíkingum gekk illa að passa boltann í leik kvöldsins, tapa honum í 21 skipti á móti aðeins 9 töpuðum boltum ÍR.

Atkvæðamestir

Dominykas Milka var atkvæðamestur fyrir Keflavík í kvöld með 16 stig, 8 fráköst og Hörður Axel Vilhjálmsson bætti við 14 stigum, 7 fráköstum og 8 stoðsendingum.

Fyrir ÍR var það Igor Maric sem dró vagninn með 26 stigum og 5 fráköstum. Jordan Semple honum næstur með 19 stig og 7 fráköst.

Hvað svo?

Keflavík á leik næst 3. febrúar gegn Breiðablik í Blue Höllinni. ÍR á leik degi seinna, þann 4. febrúar gegn Íslandsmeisturum Þór í Hellinum í Breiðholti.

Tölfræði leiks