Hildur Sigurðardóttir hefur fengið leikheimild með Snæfell í fyrstu deild kvenna.

Hildi ættu aðdáendur að þekkja, en á sínum tíma vann hún fimm Íslandsmeistaratitla og var í fjögur skipti valin körfuknattleikskona ársins. Þrjá titla vann hún með KR, tvo með Snæfell, en ásamt þeim lék hún einnig fyrir ÍR, Grindavík, Breiðablik og Jamtland í Svíþjóð.

Hildur er í dag 41 árs gömul og kemur til Snæfells frá Breiðablik. Þar þjálfaði hún og lék síðast 2016-18, en tímabilin þar á undan hafði hún unnið þann stóra með uppeldisfélagi sínu í Stykkishólmi, 2014 og 2015 ásamt því að vera valin besti leikmaður bæði tímabilin.

Samkvæmt heimildum Körfunnar er óvíst hversu mikið Hildur mun láta til sín taka með Snæfells liðinu, sem er sem stendur í 3. sæti fyrstu deildarinnar með 16 stig, en þær eru einnig komnar í undanúrslit bikarkeppninnar.