Íslandsmeistarar Vals hafa samið við Heta Äijänen um að leika með liðinu á yfirstandandi tímabili í Subway deild kvenna.

Heta er 24 ára, 186 cm finnskur framherji sem kemur til liðsins frá Advisora Mataro Maresme á Spáni þar sem hún skilaði 5 stigum og 2 fráköstum að meðaltali í leik fyrir áramótin.

Valur er sem stendur í 3. sæti deildarinnar með 14 stig, en næsti leikur þeirra er komandi miðvikudag 5. janúar gegn Grindavík í HS Orku Höllinni.

Tilkynning:

KKD Vals hefur skrifað undir samning við Heta Äijänen um að leika með kvennaliði félagsins út leiktíðina. Heta er 24 ára framherji, 186 cm og getur leyst stöður 3-5 á vellinum. Hún spilaði fyrir áramót með Advisora Mataro Maresme á Spáni og var með 5,2 stig og 1,9 fráköst í leik. Árið áður lék hún með Forssan Alku í Finnlandi hvar hún skilaði 11,5 stigum, 4,6 fráköstum og 1,4 stoðsendingu í leik. Við bjóðum Hetu velkomna í Val!