KR lagði Grindavík í kvöld í Subway deild karla, 83-81. Eftir leikinn er Grindavík í 5. sæti deildarinnar með 14 stig á meðan að KR er í 9. sætinu með 12 stig.

Hérna er meira um leikinn

Karfan spjallaði við Helga Magnússon þjálfara KR eftir leik í Vesturbænum

Hörku karakter sigur…

Já…

Þið byrjuðuð mjög sterkt í kvöld og kannski ekki von á öðru en að menn væru æstir í að komast afur í leik eftir…þung skref í Kópavoginum skulum við segja…

Köllum það bara sem það var, þetta var niðurlæging.

Jájá…en auðvitað var liðið langt frá því að vera fullmannað í þeim leik og svo sem óþarfi að vera að hanga í því mikið…

Það var náttúrulega ömurlegt að ég var fastur í sóttkví og vera með grey Darra fastan í einhverju svona þroti sko…en eins og ég sagði við strákana á æfingunni eftir þann leik að skot detta stundum og stundum ekki og allt það en við þurfum að stýra því sem við getum stýrt. Það er t.d. orka, styrkur…

…jájá…vilji, kraftur og allt slíkt…

…já, og það var bara ekki til staðar í seinni hálfleik gegn Blikum, þeir bara svínhittu og slátruðu okkur. En þess vegna var ég mjög ánægður með byrjunina, við komum út og sýndum að við vorum a.m.k. on í dag en svo fer þetta auðvitað bara eins og fer.

Akkúrat, svo komu Grindvíkingar bara með sterkt svar, skoruðu 7-17 í seinni hluta fyrsta fjórðungs. Það sem skipti svo auðvitað talsverðu máli voru fráköstin, þeir taka í heildina 50 á móti 28..það er næstum því kraftaverk að ná að vinna leikinn með slíkri tölfræði…

Jájá, Ivan var náttúrulega eins og skepna hérna í fyrri hálfleik, við sumu var svo sem ekkert að gera en stundum vantaði í raun bara aðeins upp á að hirða helvítis boltann…við ræddum þetta í hálfleik og þetta var skárra í seinni hálfleik. En þeir eru bara með stærri menn en við og svo er auðvitað alltaf þvílíkur kraftur í Óla. En svo framarlega sem menn djöflast og reyna þá…

Akkúrat. En það gæti nú verið að þið eigið eftir að bæta einum leikmanni við hópinn eða hvað?

Það er stefnan.

Yrði það þá fjarki eða fimma í Kanaígildinu?

Já, líklega. Það er ekki alveg niðurneglt enn samt.

Svona miðað við þennan leik…og auðvitað fleiri lið en Grindavík með stóra og sterka menn…þá gæti það átt eftir að skipta miklu máli?

Jájá, fráköst skipta auðvitað rosalega miklu máli og við þurfum að stýra þeim að einhverju leyti til að geta unnið leiki. Það verður ekki alltaf eins og núna að við náum að klafsa okkur einhvern veginn í gegnum þetta…

Nákvæmlega. Þið fáið svo Dani Koljanin aftur eftir meiðsli…ánægjulegt að sjá hann aftur…

Þvílíkur orkubolti og hann gefur ótrúlega jákvæða orku frá sér. Ég er búinn að sakna hans mikið á æfingum og bara að hafa hann í kringum liðið, hann er jákvæður og aldrei neitt vesen og hann drífur menn áfram og ég er mjög ánægður með að hann skuli vera kominn til baka.

Ef ég man rétt þá var hann ekki neitt sérstakt sóknarvopn fyrir liðið áður en hann meiddist…en það er aldeilis plús þegar hann byrjar að raða stigum á töfluna…

Já, hann er með einhver 12-13 stig í leik og 8 fráköst, hann er bara duglegur liðsmaður og það er ótrúlega gott að hafa svona menn í liði.

Einmitt. Svo er Lindbom nýlega kominn ekki satt…?

Já, hann er bara að finna sig, hann er nýkominn og hefur bara verið á einhverjum covid-æfingum þar sem ég og Kobbi höfum þurft að vera með! Alltaf einhver gamall þreyttur þjálfari með bara til að ná í 5 á 5 eða 4 á 4! Hann er ekki kominn í neinn rytma enn, á eftir að finna hvar hann fær sín skot og hvar hans tækifæri liggja.

Akkúrat, hann er alla veganna stór og sterkur og…

…hann kann körfubolta, flottur leikmaður.

Þú ert væntanlega bara nokkuð spenntur að sjá hvernig þetta á eftir að þróast með hann…

Já, við þurfum bara að klára Kanamál, loka liðinu og bara áfram!

Einmitt, nú eru stóru hlutirnir að fara að gerast, seinni hluti tímabilsins að detta inn…en hver er stefnan hjá KR? KR ætlar auðvitað að vera með í úrslitakeppninni en ætla KR-ingar að verða Íslandsmeistarar?

Við stefnum alltaf að því að gera atlögu. Við gerum okkur alveg grein fyrir því að það hefur kvarnast úr liðinu síðustu ár og ungir strákar að koma inn. Við viljum auðvitað að ungu strákarnir fái að spreyta sig og reynum að vera duglegir að gefa þeim mínútur og sénsinn. En að sama skapi er þetta KR og við ætlum að vera í baráttunni!

Sagði Helgi og spennandi að sjá hvernig málin þróast hjá liðinu, ekki síst ef KR-ingar finna stóran og öflugan Kana til að styrkja hópinn.