Haukar lögðu Breiðablik í kvöld í Smáranum í Subway deild kvenna, 70-97. Eftir leikinn eru Haukar í 4. sæti deildarinnar með 10 stig á meðan að Breiðablik er í 7. sætinu með 4 stig.

Gangur leiks

Gestirnir ú Hafnarfirði mættu sterkari til leiks. Voru snöggar að byggja sér upp forystu, en þegar fyrsti fjórðungurinn er á enda er munurinn 11 stig, 23-36. Undir lok fyrri hálfleiksins láta Haukakonur svo kné fylgja kviði, fara með forystu sína mest í 24 stig í öðrum leikhlutanum, en eru 19 yfir þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 37-56.

Atkvæðamest heimakvenna í fyrri hálfleiknum var Isabella ósk Sigurðardóttir með 12 stig og 7 fráköst. Fyrir Hauka var Keira Robinson frábær í fyrri hálfleiknum með 18 stig og 5 fráköst.

Góður leikur Hauka heldur áfram í upphafi seinni hálfleiksins. Ná enn frekar að bæta við forskot sitt í þeim þriðja og eru 31 stigi yfir fyrir lokaleikhlutann, 50-81. Leikurinn í raun og verunni búinn á þessum tímapunkti, en Haukar sigla að lokum heim mjög svo öruggum 27 stiga sigri, 70-97.

Kjarninn

Haukaliðið var ónarsterkt í dag. Komnar með nokkra leikmenn í liðið sem höfðu lítið spilað á tímabilinu, Helenu Sverrisdóttur, Evu Margréti Kristjánsdóttur og Jönu Falsdóttur. Þá virðist nýr bandarískur leikmaður þeirra Keira Robinson smellpassa inn í liðið, en hún kom á dögunum í stað Haiden Palmer. Eiga vegna EuroCup og frestana inni leiki á öll liðin í deildinni og munu án efa færast ofar í töflunni á næstu vikum.

Blikaliðið endurheimti einnig leikmann í dag í Iva Georgieva, sem hafði verið frá síðustu vikur vegna persónulegra ástæðna. Hún, ekkert frekar en aðrir leikmenn Blika, komst ekki í takt við leik kvöldsins. Kannski þær einu sem voru nálægt sínu formi sóknarlega voru Isabella Ósk og Telma Lind Ásgeirsdóttir. Varnarlega var liðið í heild agalegt samt og það var þar sem þær tapa leiknum, náðu illa að verja bæði teiginn og virtust samþykkja þessa 50% þriggja stiga nýtingu sem gestirnir voru að bjóða uppá.

Tölfræðin lýgur ekki

Haukar skutu boltanum einstaklega vel úr djúpinu í kvöld, þriggja stiga nýting þeirra 50% (13/26) á móti aðeins 25% (7/27) nýtingu heimakvenna.

Atkvæðamestar

Isabella Ósk Sigurðardóttir var atkvæðamest í liði Blika í kvöld með 20 stig, 10 fráköst og Michaela Kelly bætti við 20 stigum og 6 fráköstum.

Fyrir Hauka var Keira Robinson best með 27 stig, 9 fráköst og Elísabeth Ýr Ægisdóttir bætti við 15 stigum og 5 fráköstum.

Hvað svo?

Bæði lið eiga leik næst þann 30. janúar. Breiðablik heimsækir Íslandsmeistara Vals í Orgio Höllina á meðan að Haukar fá Keflavík í heimsókn.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Hafsteinn Snær)