Bakvörðurinn Gabríel Sindri Möller hefur samið við Þrótt Vogum um að leika með liðinu á yfirstandandi tímabili í annarri deild karla. Staðfestir leikmaðurinn þetta í samtali við Körfuna.

Kemur Gabríel til liðsins frá toppliði Hauka í fyrstu deildinni, en samkvæmt honum mun hann vera að skipta um lið og deild vegna krefjandi náms sem hann stundar, þar sem hann þurfi mikið að ferðast erlendis og geti því ekki sinnt körfunni eins og hann myndi vilja.

Gabríel lék á síðasta tímabili með fyrstu deildar meisturum Breiðabliks, en í 16 leikjum með liðinu skilaði hann 10 stigum, 4 fráköstum og 3 stoðsendingum að meðaltali í leik.

Gabríel er að upplagi úr Njarðvík, en þá hefur hann áður einnig leikið fyrir Breiðablik, Hamar, Skallagrím og Gnúpverja. Þá var hann einnig eitt ár í háskólaboltanum í Bandaríkjunum og lék hann á sínum tíma fyrir öll yngri landslið Íslands.