Í kvöld mættust á Flúðum lið Hrunamanna og Skallagríms í leik í 1. deild karla. Liðin voru 7.- og 8. sæti á töflunni fyrir leikinn svo fyrirfram mátti búast við jöfnum leik. Leikurinn í kvöld er fyrsti leikurinn sem Kent Hanson spilar fyrir Hrunamenn síðan í byrjun nóvember. Það var kærkomið að sjá hann á vellinum aftur. Hann náði sér ekki á strik í kvöld en átti þó stöku tilþrif sem glöddu augað. Greinilegt er að Hrunamenn þurfa að bíða eitthvað lengur eftir því að Kent komist í leikæfingu og almennilegt form.

Skallagrímsmenn byrjuðu leikinn af krafti. Þeir töpuðu boltanum sárasjaldan í fyrri hálfleik og náðu að ljúka flestum sóknum með skoti. Hittnin var ekkert frábær en með þrautseigju náðu þeir að skjóta sig í stuð og um miðjan leik hittu þeir mjög vel gegn svæðisvörn heimamanna, sérstaklega í 3. fjórðungi. Þar fór fremstur í flokki Bryan Battle með 6 þriggja stiga körfur úr 9 skottilraunum og samtals 36 stig skoruð þrátt fyrir að hafa verið í strangri gæslu Hrunamanna lengst af leiknum. Bryan átti sannkallaðan stórleik. Simun Kovac var líka góður og Ólafur Þorri og Davíð léku sömuleiðis vel.

Í liði Hrunamanna var Karlo Lebo langbestur. Hann tók 8 fráköst og skoraði 26 stig. Hreyfingar Karlos inni í teignum eru fjölbreyttar og framkvæmdar af miklum krafti. Þótt hann sé sjálfsagt ekki í hópi hæfileikaríkustu eða klókustu leikmanna deildarinnar hlýtur að vera erfitt fyrir andstæðinga Hrunamanna við hann að eiga því hann er mikill íþróttamaður og hefur gríðarlegan stökkkraft, mikinn styrk og sprengikraft og í vörninni getur hann hreyft lappirnar hratt og þannig staðsett sig fyrir framan sóknarmennina sem sækja að honum og er þannig yfirleitt í löglegri varnarstöðu þótt mikið gangi á í kringum hann í teignum. Clayton Lavine skoraði 20 stig fyrir Hrunamenn. Hjá heimamönnum tóku 11 leikmenn þátt í leiknum en aðeins 5 þeirra náðu að skora körfu, aðeins leikmennirnir sem hófu leikinn. Það sama var uppi á teningnum hjá gestunum; aðeins byrjunarliðsmenn settu stig á töfluna, engir aðrir. Varamennirnir skiluðu engu stigi!

Hrunamenn áttu í basli í leiknum. Þeir voru eitthvað daufir í dálkinn og það vantaði kraftinn í alla aðra en Karlo. Reyndar kom Elís Arnar Jónsson inn bekknum af með krafti í smástund í fyrsta leikhluta og færði sínum mönnum samstöðu og stemmningu í varnarleikinn og gott áhlaup fylgdi í kjölfarið. Þessa stemmningu náði Elís þó ekki að færa liðinu í næstu innkomum sínum og það gerðu félagar hans ekki heldur. Á meðan sigldu Skallarnir sigrinum í örugga höfn. 

Tölfræði leiks

Umfjöllun, viðtöl / Karl Hallgrímsson

Myndir / Brigitte Bruger