Einn leikur fór fram í kvöld í Subway deild karla.

Stjarnan lagði Njarðvík nokkuð örugglega í MGH í Garðabæ, 97-77.

Eftir leikinn er Njarðvík í 3.-4. sæti deildarinnar með 14 stig líkt og Grindavík á meðan að Stjarnan er í 5.-7. sætinu með 12 stig líkt og Valur og Tindastóll.

Hérna er meira um leikinn

Karfan ræddi við Benedikt Guðmundsson þjálfara Njarðvíkur eftir leik í Garðabænum.

Maður reynir alltaf að forðast hræðilega frasa…eins og að koma flatur inn í leikinn og tala um andleysi og eitthvað…

Jájá…

…en það á væntanlega við núna…ég velti stundum fyrir mér hvort það væri ekki bara réttast að slá leikmenn í gang…eins og að slá kraftlyftingarmanninn sem er að fara að reyna við heimsmetið í bekkpressu eða eitthvað…! Bókstaflega að berja menn í gang.

Jú, trúðu mér, mig langaði til að gera það! Ég get ekki sagt að við höfum allir komið flatir hérna en það voru of margir. Menn ætluðu að snúa því við í seinni hálfleik en þá var það bara orðið of seint, holan var bara orðin alltof djúp…

…jújú, þetta voru 23 stig í hálfleik…

Þessi leikur tapast bara í fyrri hálfleik, þeir tóku öll fráköst og alla 50/50 bolta, ef við náðum frákasti þá tóku þeir bara boltann af okkur! Þetta var allt svona. Þessi kraftur og áræðni verður að vera til staðar, þetta hljómar eins og að liðið sem berst meira vinni alltaf en auðvitað er það ekki svo einfalt…

…einmitt, en það þarf að vera með…

…þú verður að vera aggressívur í íþróttum, ef þú ert linur þá er voðalega erfitt að vera íþróttamaður, sérstaklega á Íslandi þar sem við Íslendingar förum þetta gjarnan á geðveikinni og baráttunni sem hleypir okkur langt, það er ekki bara landsliðin, þetta er líka í deildarkeppninni. Svona virkar þetta á Íslandi, þetta hljómar kannski svolítið eins og Óli Þórðar, við börðumst ekki nóg og eitthvað…en þetta þarf að vera til staðar.

Það fór kannski saman með fyrrnefndum atriðum að liðið hitti illa til að byrja með…

…jájá…

…svo hélt það bara einhvern veginn áfram og munurinn fór upp í einhver 15-20 stig og þá er ennþá erfiðara að fara af sjálfstrausti upp í skotið, jafnvel þó þú heitir Fotis og hafir 100 ára reynslu og eitthvað…

Við höfum verið að hitta illa á útivelli í vetur þannig að það er svo sem ekki eitthvað nýtt. En við vorum að fá galopin þriggja stiga skot, við vorum að fá einhver sniðskot og troðslur sem við vorum að klikka úr og svona. Svo þegar við vorum að reyna að byggja upp stemmningu þá kom einhver klaufalegur tapaður bolti eða eitthvað slíkt sem dró úr mönnum…

…einmitt, stemmningin dó einhvern veginn um leið drottni sínum jafnharðan af einhverjum ástæðum…

Akkúrat, það var ekkert að hjálpa, en þetta er enginn heimsendir. Við verðum bara að mæta klárir í leikina, kannski fórum við of hátt eftir sigurinn á móti Keflavík, ég veit það ekki…

…jájá, það var náttúrulega mjög góður sigur og allt það…

…jájá, maður hefur alveg séð lið koma eftir stóra sigra, í bikarúrslitum eða eitthvað,  á jogginu í næsta leik eða í það minnsta ekki með sama kraft.

Það er vissulega fátt nýtt í þessu, maður hefur séð flest áður má kannski segja. En talandi um það, þið voruð með 22% skotnýtingu utan af velli í hálfleik…hefur þú séð annað eins í úrvalsdeild karla?

Nei…ég þyrfti nú smá tíma til að rifja það upp…það gæti nú vel verið að það sé ekki en ég þekki það ekki sko…

Neinei, það verður einhver til þess að skoða það. En hvað er næsti leikur hjá ykkur?

Það er Þór Þ. á útivelli, við erum á þriggja leikja útileikjatörn, Keflavík, Stjarnan og svo Þór Þ.

Ég fullyrði að þið vinnið ekki Þór Þ. með svona leik…

…ekki með svona leik nei, það er alveg klárt mál!

Það er bara að bíta í skjaldarrendur og rífa sig áfram.

Jájá, við núllstillum okkur, förum yfir þetta og pössum að svona gerist ekki aftur, að við mætum svona daufir til leiks, þetta var ofsalega dauft.