Höttur lagði Selfoss heima á Egilsstöðum í framlengdum leik í kvöld í fyrstu deild karla.

Eftir leikinn er Höttur í efsta sæti deildarinnar, tveimur stigum á undan Haukum sem eiga leik til góða og innbyrðis á þá. Selfoss er í 6. sæti deildarinnar með 16 stig.

Líkt og tölurnar gefa til kynna var leikur kvöldsins nánast í járnum frá byrjun til enda. Þar sem að Höttur leiddi í hálfleik, 42-38, en við lok venjulegs leiktíma var leikurinn jafn, 91-91. Í framlengingunni má segja að heimamenn í Hetti hafi tekið öll völd á vellinum, sigra framlenginguna 16-8 og leikinn að lokum, 107-99.

Timothy Guiers átti enn einn stórleikinn fyrir Hött í kvöld með 29 stig, 7 fráköst og 9 stoðsendingar. Þá bætti Arturo Fernandez við 23 stigum fyrir þá.

Fyrir Selfoss var Gerald Robinson atkvæðamestur með 28 stig og 15 fráköst og Trevon Evans honum næstur með 23 stig og 9 stoðsendingar.

Bæði lið eiga leik næst komandi föstudag 4. febrúar, Selfoss heimsækir Hamar í Hveragerði og Höttur fær Hrunamenn í heimsókn.

Tölfræði leiks

Höttur: Timothy Guers 29/7 fráköst/9 stoðsendingar, Arturo Fernandez Rodriguez 23, Matej Karlovic 23/6 fráköst, David Guardia Ramos 17/5 fráköst, Juan Luis Navarro 7/12 fráköst, Sigmar Hákonarson 3, Brynjar Snaer Gretarsson 3, Adam Eiður Ásgeirsson 2/6 fráköst, Jóhann Gunnar Einarsson 0, Sigurjón Trausti G. Hjarðar 0, Andri Hrannar Magnússon 0, Sævar Elí Jóhannsson 0.


Selfoss: Gerald Robinson 28/15 fráköst/6 stoðsendingar, Trevon Lawayne Evans 23/5 fráköst/9 stoðsendingar, Vito Smojver 15/5 fráköst, Gasper Rojko 14/13 fráköst, Óli Gunnar Gestsson 13/4 fráköst, Arnar Geir Líndal 6, Ísar Freyr Jónasson 0, Þorgrímur Starri Halldórsson 0, Styrmir Jónasson 0.

Umfjöllun / Pétur Guðmundsson