Einn leikur fór fram í kvöld í Subway deild karla.

Stjarnan lagði Njarðvík nokkuð örugglega í MGH í Garðabæ, 97-77.

Eftir leikinn er Njarðvík í 3.-4. sæti deildarinnar með 14 stig líkt og Grindavík á meðan að Stjarnan er í 5.-7. sætinu með 12 stig líkt og Valur og Tindastóll.

Hérna er meira um leikinn

Karfan ræddi við Arnar Guðjónsson þjálfara Stjörnunnar eftir leik í Garðabænum.

Þetta var bara helvíti frábær leikur hjá ykkur! Hugsanlega ykkar besti í vetur?

Hugsanlega, mér fannst við á köflum góðir en Njarðvíkingar áttu ekki sinn besta leik og það skiptir máli. En mér fannst við gera margt betur en oft áður og ég er ánægður með það.

Jájá, það má rifja upp frasann að andstæðingurinn spilar ekki betur en þú leyfir honum…og mér fannst rosalega góður andi í liðinu í kvöld, mér fannst það mjög áberandi.

Já, en svo er það kannski þetta gamla góða að þegar þú ert kominn 10 stigum yfir þá eru hlutirnir auðveldari, það er auðveldara að brosa og hlæja í +10 en -18 eins og við vorum á móti Breiðablik hérna um daginn, þá er andinn ekkert sérstaklega góður því menn eru keppnismenn og það er bara hundfúlt þegar gengur illa. En strákarnir stóðu sig vel í dag og við erum glaðir.

Það er kannski rugl í mér en mér finnst liðið líta talsvert betur út í þessum leik en á móti Blikum…

Jájá, ég er 100% sammála þér um það.

Þið frákastið t.d. frábærlega í þessum leik…

Já, við gerðum vel, ég er ekki búinn að skoða tölurnar en mér fannst við vera grimmir í fráköstunum, það er hlutur sem við viljum gera vel. Það skiptir máli í þessu. Þeir tóku samt stór sóknarfráköst undir lokin þegar þeir voru farnir að hóta því að komast inn í leikinn aftur og það er eitthvað sem við þurfum að laga.

Akkúrat, þeir minnka muninn í 12 stig þegar 4 mínútur voru eftir og þá tókstu leikhlé eðlilega…og munurinn fór svo niður í 9 stig en sem betur fer fyrir þig og þína menn þá fór þetta ekki lengra…þetta getur verið fljótt að fara þegar menn verða hræddir…

Jájá, við vorum kannski svolítið hræddir, við erum búnir að vera í smá brekku og það er eðlilegt að menn verði svolítið ragir, en við unnum, við sóttum sigur hérna rétt fyrir nýtt ár og þennan vörðum við. Við þurfum að líta jákvæðum augum á þetta og byggja á því.

Nákvæmlega…það er talsvert léttara yfir þessu núna en fyrir einhverjum nokkrum leikjum síðan…

Það er merkilegt við sportið að helsta meðalið við því að þungt sé yfir hlutunum er að vinna leiki! Við erum ekkert flóknari en það. Þegar þú vinnur líður þér vel en þegar þú tapar líður þér illa!

Einmitt, fjórir sigrar í síðustu 5 hjá ykkur, hver er næsti leikur?

Það mun vera Keflavík í undanúrslitum bikarsins í Smáranum.

Það verður hörkuleikur!

Já, þeir eru drullugóðir og komnir með nýjan leikmann og svona svo það verður bara stuð og stemmning!