Karfan gaf á árinu 2021 út 111 podköst sem að meðallengd voru 82 mínútur. Það gerir upptöku á næstum þriggja daga fresti eða um 25 mínútur af útvarpi fyrir hvern einasta dag ársins. Tveir þáttana sem Karfan gefur út lifðu af árið, Aukasendingin og The Uncoachables. The Uncoachables verið gefið út reglulega síðan snemma árið 2019 á meðan að Aukasendingin kom fyrst út haustið 2018.

Eftir tvö góð ár á Körfunni skildi Boltinn Lýgur Ekki með Sigurði Orra við miðilinn eftir 81 útgefið podkast og er nú hluti af X-inu 9-77 með tvo þætti í viku, einn í beinni útsendingu á fimmtudögum og venjulega annan sem kemur á podkastveitur á sunnudegi eða mánudegi.

Brotthvarf þeirrar góðu manneskju sem stjórnandinn Sigurður Orri er og þess skemmtilega efnis sem Boltinn Lýgur Ekki hafði oft á tíðum að geyma skapaði ákveðið pláss hjá miðlinum til þess að fara í nýjar áttir og til þess fengust Atli Arason með Undir Körfunni, Dominykas Milka með Social Chameleon og Ólöf Helga Pálsdóttir með Fókus, sem öll hafa komið reglulega út á tímabilinu.

Listen on Apple Podcasts

Leikmaður Keflavíkur í Subway deild karla Dominykas Milka fór af stað með Social Chameleon fyrr á tímabilinu, en yfirskriftin hjá honum er að ræða við hina ýmsu aðila, að mestu sem tengjast körfubolta, um hin ýmsu málefni, sem ekkert alltaf tengjast íþróttinni. Til þessa hefur Dominykas rætt við 13 aðila, en vinsælasti þáttur hans á tímabilinu var viðtal hans við fyrrum leikmann Njarðvíkur, Grindavíkur og íslenska landsliðsins Brenton Birmingham.

Ólöf Helga fjallar í Fókus aðeins um kvennakörfubolta. Þá leiki, fréttir og hræringar sem gerast aðallega í Subway deild kvenna, en einnig í fyrstu deildum, sem og af íslenskum leikmönnum erlendis.

Þá hefur Atli Arason farið af stað með það verkefni að ræða við einn leikmann úr öllum liðum Subway deilda karla og kvenna. Til þessa hefur hann rætt við átta leikmenn í níu podköstum og á teikniborðinu er að ná þeim öllum áður en tímabilið er á enda. Vinsælasti þáttur Undir Körfunni á árinu var viðtal Atla við Emblu Kristínardóttur, landsliðsleikmann og fyrrum leikmann Skallagríms.