Valur lagði Hauka í kvöld í Origo Höllinni í Subway deild kvenna, 79-70. Eftir leikinn er Valur í 3. sæti deildarinnar með 14 stig á meðan að Haukar eru í 4. sætinu með 8 stig. Haukar hafa þó leikið nokkrum leikjum færri en flest lið deildarinnar vegna þátttöku þeirra í riðlakeppni FIBA EuroCup.

Staðan í deildinni

Gestirnir úr Hafnarfirði mættu mun betur til leiks heldur en heimakonur í Val. Haukar leiða eftir fyrsta leikhluta með 11 stigum, 12-23. Undir lok fyrri hálfleiksins ná heimakonur þó áttum, en munurinn samt ennþá 11 stig þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 32-43.

Valur gerir vel í að halda sér inni í leiknum í upphafi seinni hálfleiksins og ná aðeins að vinna á forskot Hauka í þriðja leikhlutanum. Munurinn þó enn 7 stig fyrir lokaleikhlutann, 54-61. Í fjórða leikhlutanum taka heimakonur svo öll völd á vellinum, jafna, komast yfir og sigra að lokum nokkuð örugglega með 9 stigum, 79-70.

Ameryst Alston og Ásta Júlía Grímsdóttir voru bestar í liði Vals í dag. Ameryst að hóta þrennunni með 29 stigum, 9 fráköstum og 8 stoðsendingum, en Ásta Júlía með 21 stig og 16 fráköst.

Fyrir Hauka var Helena Sverrisdóttir atkvæðamest, af bekknum, að skila 15 stigum og 6 fráköstum. Þá bætti Lovísa Björt Henningsdóttir við 14 stigum og 7 fráköstum.

Bæði lið eiga leik næst í deildinni á milli jóla og nýárs. Valur heimsækir Fjölni í Dalhús þann 29. desember á meðan að Haukar leika degi seinna, 30. desember, gegn Breiðablik í Ólafssal.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Bára Dröfn)