Tindastóll tók á móti ÍR í Subway deild karla í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld eftir landsleikjahlé.

Leikurinn fór fjörlega af stað hjá báðum liðum en ÍR-ingar tóku frumkvæði og leiddu 8-13 eftir þrista frá Róbert og Maric. Baldur tók leikhlé og Stólar hertu þá tökin í vörninni og voru búnir að jafna 2 mínútum síðar í 15-15 og jafnræði var með liðunum það sem eftir lifði fyrsta fjórðungs en Stólar leiddu að honum loknum 22-20.  Sama sagan var uppi á teningnum fram af öðrum leikhluta, liðin skiptust á að skora.

Þegar um fjórar mínútur voru til hálfleiks tóku heimamenn hinsvegar öll völd á vellinum og náðu 15-3 kafla gegn ráðlausum gestunum og leiddu 47-34 í hálfleik. Taiwo Badmus fór síðan hamförum í upphafi seinni hálfleiks og skoraði 8 fyrstu stig heimamanna. Þegar Siggi Þorsteins kom muninum svo í 16 stig 57-41 tók Friðrik leikhlé og reyndi að stappa stálinu í sína menn. Það virkaði þó ekki til að byrja með og Tindastóll náði mest 20 stiga forystu áður en gestirnir fóru að svara fyrir sig af alvöru. Þá gerðu þeir það líka með stæl og það var eins og heimamenn slökuðu talsvert á seinni hluta þriðja fjórðungs og gestirnir minnkuðu muninn í 11 stig fyrir lokaátökin.

Sama þróun hélt áfram inn í fjórða leikhluta og værukærir heimamenn í Tindastól leyfðu ÍR að komast nánast upp að hlið sér. Staðan orðin 73-69 þegar enn voru rúmar 7 mínútur eftir af leiknum og hellingur af körfubolta eftir í leiknum. Baldur tók leikhlé og á næstu mínútum eftir það náðu Bess og Siggi Þorsteins að auka muninn aðeins fyrir heimamenn í kringum 10 stigin og þann mun náðu gestirnir aldrei að brúa enda hittnin afleit þó laglegar körfur kæmu hjá þeim inn á milli.  Glæsilegt alley-oop frá Bess til Badmus innsiglaði sigurinn í lokin og heimamenn á pöllunum fögnuðu ákaft.


Taiwo Hassan Badmus átti stórleik fyrir Tindastól í kvöld, skoraði 29 stig (taflan sagði 31) og tók 6 fráköst. Siggi Þorsteins var þó framlagshæstur eftir að hafa skilað 15 stigum og 10 fráköstum.

Hjá gestunum var stigaskorði mun jafnara og Sigvaldi, Pryor og Tristan Isiah Simpson skoruðu allir 16 stig en enginn þeirra tók meira en 5 fráköst enda rústuðu Stólar frákastabaráttunni, tóku 47 gegn aðeins 28 hjá gestunum.

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

Umfjöllun, myndir, viðtal / Hjalti Árna