KR lagði Þór Akureyri í kvöld að Meistaravöllum í Subway deild karla, 83-74. Eftir leikinn er KR í 7. sæti deildarinnar með 10 stig á meðan að Þór er ennþá án sigurs í 12. sætinu.

Þórsarar voru betri aðilinn í upphafi leiks í kvöld, leiddu með 11 stigum eftir fyrsta leikhluta, 15-26. Heimamenn í KR ná þó að komast inn í leikinn undir lok fyrri hálfleiksins, en þegar að liðin halda til búningsherbergja var allt jafnt, 34-34.

Aftur taka Þórsarar af stað í upphafi seinni hálfleiksins og leiða með 6 stigum eftir þrjá leikhluta, 54-60. Í lokaleikhlutanum gera heimamenn þó vel í að vinna það niður og sigla að lokum mjög svo öruggum 9 stiga sigur í höfn, 83-74.

Shawn Glover og Adama Darboe voru báðir frábærir fyrir KR í kvöld. Shawn með 28 stig, 10 fráköst og Adama 22 stig, 7 fráköst og 6 stoðsendingar. Fyrir Þór var það Atle Ndiaye sem dró vagninn með 20 stigum og 5 fráköstum. Þá bætti Dúi Þór Jónsson við 9 stigum og 12 stoðsendingum.

Bæði lið eiga leik næst á milli jóla og nýárs, 28.desember. KR heimsækir Val í Origo Höllina á meðan að Þór Akureyri fær Tindastól í heimsókn.

Tölfræði leiks