Breiðablik lagði Val fyrr í kvöld í Subway deild karla, 89-87. Eftir leikinn er Valur í 6. sætinu með 10 stig á meðan að Breiðablik er í 8. sætinu, einum leik fyrir aftan, með 8 stig.

Hérna er meira um leikinn

Karfan spjallaði við Pétur Ingvarsson þjálfara Breiðabliks eftir leik í Smáranum.

Frábær sigur hjá þínum mönnum!

Já…flestir sigrar eru frábærir, er það ekki?

Nja…veit það ekki…

…allaveganna fyrir okkur! Við tökum alla frábæra sigra!

Jájá…allir sigrar eru í það minnsta jákvæðir, það er ljóst! En það þarf ekki mikinn speking til að sjá hvernig þið settuð upp varnarleikinn, skemmtilegt að sjá þessa taktík. Sumir segja að þetta sé einhver tíska í boltanum núna að velja hverjir fá skot og hverjir fá alls ekki skot hjá andstæðingnum. Það gekk bara vel í leiknum?

Það gekk vel, Valur er mjög óskilvirkt sóknarlið, bara mjög lélegt sóknarlið og við vissum það. Þeir eru að hægja á þessu og við nýttum okkur það bara í kvöld hversu lélegir þeir eru sóknarlega. Þeir eru góðir í vörn en óskilvirkir í sókn og við lögðum þetta upp þannig að þeir myndu ekki skora meira en 90 stig og við myndum bara þurfa að skora meira en það. Það gekk reyndar ekki alveg upp, við settum bara 89 en nóg var það.

Það slapp til! Þetta var nánast nákvæmlega eftir plani þá!

Það var bara svoleiðis!

Mér fannst svolítið djarft hjá ykkur að gefa Callum Lawson þrista og jafnvel skot af millifærinu?

Akkúrat, þetta er það sem við höfum aðeins verið að stúdera, þeir eru mjög óskilvirkir og ef hann vill taka skot þá mann bara taka það, hann lítur rosalega vel út en hann tapar leiknum ef þeir ætla að láta hann skjóta öllum skotunum.

Já…hann hefur ekki verið að hitta vel í vetur…

…neinei…hann hefði getað tekið 40 galopin skot í leiknum ef hann hefði viljað en tekur ekki nema 20. Svona eru þeir óskilvirkir.

Nú hef ég séð allnokkra leiki með ykkur í vetur og mér finnst þið ná að fá andstæðingana í ykkar leik…

Já við erum með bara ákveðin tæki og tól til að gera það. Það er rosalega erfitt að hægja á leiknum, þeir voru náttúrulega að gera það og ef þeir væru með skilvirkara sóknarlið þá hefði þetta aldrei gengið upp. Við vissum það að ef við ætluðum að fara í þeirra leik þá eigum við ekki séns en ef þeir fara í okkar leik þá aukast líkurnar á að við vinnum. Það er kannski það sem við erum að leggja upp með, við æfum á þessum hraða og reynum að ná leiknum upp í hraða og þegar það tekst þá erum við inn í leikjum. Þessi leikur var nú bara eins og flestir leikir sem hafa verið hérna, við höfum verið að tapa með tveimur stigum en núna vinnum við með tveimur.

Einmitt, þannig hefur það verið svolítið hjá ykkur. Nú eru tveir synir þínir í liðinu, Hilmar er kannski löngu búinn að sanna sig, frábær leikmaður! Nú er sá yngri, Sigurður, að spila svolítið meira eftir að Sinisa yfirgaf félagið, það hlýtur að vera tvöföld ánægja að sjá hann spila svona vel?

Jájá, en það er náttúrulega líka vont þegar að syni manns er að mistakast! Það er ekki gott. En hann er náttúrulega frábær varnarmaður og þeir eru svolítið að gefa honum opin skot og hann er að setja þau ofaní. En hann er þarna því hann er frábær varnarmaður og þeir eru það báðir bræðurnir, og liðið spilaði bara frábæra vörn í dag þó að við höfum verið að gefa fullt af opnum skotum…

…já svona miðað við planið…

…einmitt, við erum að leggja upp leikinn með ákveðnum hætti og þegar menn halda sér við planið þá erum við að spila góða vörn.

Einmitt. En varðandi fráköstin, það var nánast jafnt í fráköstum að lokum, Valur var einhverjum 7 fráköstum yfir í hálfleik. Maður bjóst eiginlega ekki við því, frekar að fráköstin gætu orðið talsvert vandamál fyrir þína menn?

Við erum náttúrulega ekki hávaxnasta liðið í deildinni, en við æfum ákveðna hluti til að minnka möguleikana fyrir hin liðin til að ná sóknarfráköstum. Það er það sem við þurfum að eyða tíma í að æfa. Það gekk í dag.

Eitt að lokum, stendur til að bæta við leikmanni í hópinn?

Það er svolítið í skoðun. Sigurður er að stíga upp núna og ef við fáum leikmann þá detta mínúturnar hans út, ef við fáum stóran mann þá fækkar hugsanlega mínútum hjá Danero og Sveinbirni þannig að það er ýmislegt sem við þurfum að huga að.

Þið spilið á 7 mönnum, tæpara má það nú varla vera?

Neinei, við megum ekki við miklu en við eigum mjög efnilega stráka á bekknum. Við bjuggumst kannski ekki við að Sigurður væri alveg svona tilbúinn og svo eru þarna yngri strákar sem eru vonandi tilbúnir ef að kallið kemur.

En vantar ykkur ekki tveggja metra mann sem getur hlaupið með liðinu og frákastað og eitthvað í þá áttina?

Los Angeles Lakers vantar svoleiðis mann líka…!

Já…en ykkur vantar ekki leikmann sem er leikstjórnandi og er einn og áttatíu…?

Nei…en ef ég mætti ráða þá myndi ég bara vilja góðan körfuboltamann sko…sama með hæðina á honum og eitthvað svoleiðis. En við erum að skoða þessa hluti og hvernig við leysum þetta, hvort við eigum að fá einhvern bosman-leikmann sem svo reynist kannski ekki nógu góður og er bara að taka mínútur af einhverjum, eða styrkja þetta með einhverjum tveimur sem geta sætt sig við minna hlutverk.

Sagði meistari Pétur Ingvars, það er afar spennandi að sjá að hvaða niðurstöðu Pétur og hans menn komast í þessum efnum.