Haukur Helgi Pálsson er mættur á parketið á nýjan leik en hann klukkaði sínar fyrstu mínútur í Subwaydeildinni í kvöld þegar Njarðvík valtaði yfir Vestra. Lokatölur 98-69 í leik þar sem Njarðvíkingar voru við stýrið frá upphafi til enda.

Veigar Páll Alexandersson var atkvæðamestur heimamanna og kom af bekknum með 21 stig en Rubiera Rapaso Alejandro var stigahæstur Vestra-manna með 12 stig.

Gangur leiksins

Njarðvíkingar leiddu 27-20 að lokum fyrsta leikhluta. Fotis var með 10 stig í liði heimamanna en Jurica 5 í liði Vestra. Basile var með yfirfrakkann á Bosley sem var 0-6 í skotum eftir fyrsta leikhluta. Í öðrum leikhluta mætti Haukur Helgi Pálsson á parketið fyrir Njarðvíkinga og urðu það hans fyrstu leikmínútur þetta tímabilið. Heimamönnum virtist líka vera Hauks á parketinu ágætlega og settu í fluggír, unnu annan leikhluta 25-12 og leiddu 52-32 í hálfleik.

Richotti var stigahæstur hjá Njarðvík í hálfleik með 13 stig, 4-6 í þristum og Veigar Páll kom öflugur inn af bekknum með 10 stig en Nemanja og Bosley voru báðir með 8 hjá Vestra.

Vestramenn mættu ögn ákveðnari inn í síðari hálfleik en Njarðvík vann samt þriðja 19-16 og leiddi 71-48 fyrir fjórða og síðasta leikhluta og í raun ballið búið.

Bestu menn

Veigar Páll Alexandersson kom virkilega sterkur inn af Njarðvíkurbekknum með 21 stig, 2 fráköst, 2 stoðsendingar og 2 stolna bolta en fjórir leikmenn Njarðvíkur voru með 17 stig eða meira í dag. Nico Richotti var 6 af 10 í þristum og lauk leik með 19 stig og Basile sem hafði Vestramanninn Bosley í strangri gæslu var með 17 stig, 7 fráköst og 8 stoðsendingar.


Gestirnir frá Vestra fengur úr litlu að moða í kvöld en fjórir liðsmenn þeirra gerðu 10 stig eða meira og Alejandro þeirra stigahæstur með 12.

Endurkoma Hauks

Margir Njarðvíkingar glöddust við að sjá Hauk Helga á parketinu á nýjan leik en hann var með 2 stig, 2 fráköst og 3 stoðsendingar á þeim 17 mínútum sem hann spilaði í kvöld. Ljóst er að hann á nokkuð eftir í land með að komast í toppstand en Njarðvíkingar eru vel mannaðir og fengu framlag úr mörgum áttum í kvöld.

Næstu skref

Næsti deildarleikur Njarðvíkinga verður merkilegur slagur gegn Stjörnunni í Garðabæ en Vestri fær Blika í heimsókn í leik þar sem tvö risavaxin stig verða í boði í botnbaráttunni.

Tölfræði leiks
Myndasafn (væntanlegt)