Njarðvík tók á móti Grindavík í Subway deild kvenna í kvöld. Fyrir leikinn voru heimakonur í efsta sæti deildarinnar, en Grindvíkingar voru í því sjötta.

Liðin voru frekar jöfn framan af í fyrsta fjórðung, og var jafnt á nokkurn veginn öllum tölum þar til Aaliyah Collier skoraði þrist og kom Njarðvík í 17-14. Njarðvík hafði þriggja stiga forskot eftir fyrsta leikhluta, 19-16.

Fljótlega í öðrum leikhluta náðu heimakonur góðu áhlaupi og átta stiga forskoti, 27-19. Leikurinn var í jafnvægi það sem eftir lifði fyrri hálfleiks og höfðu Njarðvíkingar fimm stiga forskot í hálfleik, 32-27.

Leikurinn hélt áfram í þessu jafnvægi stærstan hluta þriðja fjórðungs. Njarðvík hafði lengst af um fimm stiga forskot, en undir lok fjórðungsins kom áhlaup frá Njarðvík, og komust i tólf stiga forskot með tveimur þristum frá Kamillu Sól Viktorsdóttur, 53-42.

Eftir þetta varð munurinn aldrei minni en tíu stig, og jókst bara eftir því sem á leið. Fór svo að lokum að Njarðvík vann þægilegan sautján stiga sigur, 71-54.

Aaliyah Collier var atkvæðamest Njarðvíkinga með 18 stig, og Lavina Gomes De Silva skoraði 15 stig og tók 12 fráköst. Hjá Grindvíkingum var Robbi Ryan atkvæðamest með 24 stig.

Njarðvíkingar tróna á toppi deildarinnar eftir leiki kvöldsins með 8 sigra og tvö töp. Grindvíkingar sitja í sjötta sæti með 3 sigra og sjö töp. Næsti leikur Njarðvíkur er gegn Val í Origo höllinni þann 5. desember. Sama kvöld tekur Grindavík á móti Val.