Byrjunarlið

Njarðvík: Kamilla, Vilborg, Aliyah, Diane, Lavina

Breiðablik: Birgit, Michaela, Anna soffÍa, Ísabella og Iva

Gangur leiksins

Fyrir leik voru liðin á sitthvorum enda töflunnar; Njarðvíkingar efstar með 18 stig á meðan Breiðablik sátu í næst neðsta sæti með 4 stig

Leikurinn byrjaði mjög hraður þar sem liðin skiptust á körfum og hittni beggja liða mjög góð. Hjá báðum voru það erlendu leikmenn beggja liða sem sáu fyrst og fremst um skorun. Aðeins hægðist þó á sóknaræði beggja liða seinni hluta leikhlutans og eftir hann leiddu Njarðvíkingar með einu stigi 23-22.

Mikið hægðist á leiknum í öðrum leikhluta þar sem mikið var dæmt af villum. Njarðvíkingar voru ívið betri í leikhlutanum en náðu aldrei stoppum til að slíta sig frá blikunum sem sýndu mikla baráttu og ekki var að sjá að þær væru eins búnar að vinna tvo leiki í vetur. Staða í hálfleik 42-39 fyrir heimakonur. Stigahæstar í liði Njarðvíkur voru evrópsku leikmenn þeirra, Lavinia og Diane með 12 stig hvor er þeirra jafnan stigahæsti leikmaður Aliyah endaði hálfleikinn með aðeins 7 stig en hún hvíldi mikið af hálfleiknum vegna villuvandræða. Í liði Blika var Michaela með 15 stig og Iva bætti 9 við.

Þriðji leihluti fékk að fljóta mun meira en annar leikhlutinn en varnirnar hertust þó. Njarðvík hafði yfirhöndina í leikhlutanum en að honum loknum var staðan 55-51.

Njarðvíkingar tóku 7-0 áhlaup í byrjun fjórða leikhluta og tók Ívar leikhlé til að stöðva blæðinguna. Úr leikhéinu fóru Blikakonur á sitt eigið 7-0 áhlaup og tók þá Rúnar leikhlé. Það var greinilegt að Blikar ætluðu að selja sig dýrt í þessum leik. Liðin skiptust svo á körfum þar sem mikil barátta var í fyrirrúmi. Þegar 1:26 voru eftir af leiknum þá komst Breiðablik einu stigi yfir 66-67 og ljóst var að þessar seinustu sekúndur leiksins yrðu spennuþrungar. Kamilla fékk tvo víti fyrir Njarðvíkinga en klikkaði á þeim báðum, blikar héldu í sókn en náðu ekki að setja boltann ofaní og brotið var á Diane eftir frákastið og hélt hún yfir á vítalínuna hinu meginn þar sem Njarðvík var komið í bónus og setti hún bæði sín víti og kom Njarðvíkingum í 68-66 með 29 sek eftir af leiknum. Telmu brást bogalistin naumlega í seinustu sókn Blika og því urðu endatölur 68-66 fyrir heimakonur.

Í leikslok

Blikakonur hljóta að naga sig í handabökin að hafa ekki náð að landa sigri í þessum leik eftir mikla baráttu. Ekki var að sjá að þær væru næst neðstar í deildinni og eitt er víst; Breiðablik á eftir að vinna nokkra leiki í vetur með þessari spilamennsku. Njarðvíkingar hljóta að vera sáttar við að koma burt með tvo stig eftir þennan leik og halda sínu sæti á toppi deildarinnar.

Aðkvæðamestar

Í liði Njarðvíkur endaði Aliyah með 24 stig og 12 fráköst, Lavina bætti þá við 16 stigum, 6 fráköstum og 7 stoðsendingum.

Hjá Blikum endaði Michaela með 19 stig, 10 fráköst og 8 stoðsendingar, Iva með 13 stig og 5 stoðsendingar en dró mjög af þeim stöllum í seinni hálfleik.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Jón Björn)

Umfjöllun / Einar Thorlacius