Keflavík lagði heimamenn í Grindavík í kvöld í 10. umferð Subway deildar karla, 76-90. Eftir leikinn er Keflavík í efsta sæti deildarinnar með 18 stig á meðan að Grindavík er í 3.-6. sætinu með 12 stig líkt og Tindastóll, Njarðvík og Valur.

Gangur leiks

Segja má að gestirnir úr Keflavík hafi mætt á fljúgandi hraða inn í leik kvöldsins. Ná um leið í fyrsta leikhluta að byggja sér upp þægilega forystu, en þegar fyrsti fjórðungur er á enda leiða þeir með 12 stigum, 15-27. Undir lok fyrri hálfleiksins ná Keflvíkingar enn að bæta við muninn, sem mestur fer í 22 stig í öðrum leikhlutanum. Með nokkrum góðum körfum frá Elbert Matthews ná heimamenn þó að minnka bilið undir lok hálfleiksins, en þegar að liðin halda til búningsherbergja munar enn 12 stigum, 33-45.

Jaka Brodnik var gjörsamlega stórkostlegur fyrir gestina í þessum fyrri hálfleik, klikkaði ekki úr skoti, var með 17 stig og 3 fráköst eftir fyrstu tvo leikhlutana. Hörður Axel Vilhjálmsson einnig flottur í fyrri hálfleiknum með 11 stig og 8 stoðsendingar. Fyrir heimamenn var Naor Sharabani líflegastur í fyrri hálfleiknum með 9 stig og 4 stoðsendingar.

Grindavík gerir ansi vel í upphafi seinni hálfleiksins. Ná að skera forystu gestanna enn meira niður, en næst fara þeir 7 stigum frá þeim um miðjan leikhlutann. Botninn dettur þó all verulega úr því áhlaupi í lok þriðja fjórðungsins og Keflavík kemur forystu sinni í 17 stig fyrir lokafjórðunginn, 50-67. Í þeim fjórða ná Grindvíkingar að komast 10 stigum næst gestunum, lengra komast þeir ekki. Keflavík sigrar að lokum með 14 stigum, 76-90.

Kjarninn

Keflvíkingar misstu lykilmann sinn David Okeke í meiðsli í lok síðasta leiks. Var vel hægt að sjá fyrir sér fyrir þennan að sá missir mynda riðla skipulagi þeirra svo að Grindavík ætti sjéns. Það var hinsvegar ekki raunin. Keflavík átti þennan leik frá byrjun til enda, mögulega fyrir utan tvö ágætis áhlaup heimamanna í seinni hálfleiknum. Leit bara alls ekki nógu vel út fyrir Grindavík í dag, gáfu alltof margar auðveldar körfur varnarlega og söknuðu meira framlags frá lykilmönnum sínum sóknarlega.

Keflavík gerði líka bara vel. Svöruðu fjarveru David Okeke upp á tíu. Leikmenn eins og Hörður Axel, Halldór Garðar Jaka Brodnik og CJ Burks allir að taka meira til sín sóknarlega og voru allir frekar skilvirkir í leiknum.

Atkvæðamestir

Hörður Axel var besti leikmaður vallarins í dag, skilaði 17 stigum og 10 stoðsendingum á 75% skotnýtingu í leiknum. Þá bætti Jaka Brodnik við 20 stigum og 6 fráköstum.

Hjá Grindavík var Naor Sharabani framlagshæstur með 9 stig og 12 stoðsendingar. Næstur honum var Ivan Aurrecoechea með 19 stig og 10 fráköst.

Hvað svo?

Bæði lið eiga leik næst á milli jóla og nýárs. Grindavík mætir Íslandsmeisturum Þórs í Þorlákshöfn þann 27. desember á meðan að Keflavík tekur á móti Njarðvík í þeim klassíska tveimur dögum seinna, 29. desember.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Ingibergur Þór)