Hanna Þráinsdóttur, fyrrum leikmaður meistaraflokks ÍR, hefur fengið Fulbright skólastyrk til frekara náms í Bandaríkjunum. Hanna sem spilar núna fyrir Georgian Court University hefur verið liðinu mjög mikilvæg bæði innan sem utan vallar að sögn þjálfara hennar, Jasmina Perazic.

„Ég veit ekki hvort að orð fái því lýst hve mikið Hanna hefur gert fyrir háskólann okkar og liðið okkar,“ sagði þjálfari Hönnu um áhrifin sem Hanna hefur á fólkið í kringum sig úti í háskólanum þar sem hún hefur verið undanfarin ár.

Hanna kom fyrst til liðsins árið 2018 en hefur ekki spilað eins mikið og tækifæri var til vegna Covid faraldursins alræmda. Hún hefur sem dæmi spilað fleiri leiki fyrsta tímabilið hennar (fyrir tíma kórónaveirunnar) en hún hefur síðan þá (26 leikir á einu tímabili samanborið við 18 leiki síðan). Á tíma sínum hjá liðinu hefur hún vaxið jafnt og þétt og bætt liðið sitt til muna, samkvæmt þjálfaranum.

„Hún átti stóran þátt í árangri okkar á seinasta ári, sem fór fram úr okkar björtustu vonum. Liðið okkar vann deildarkeppnina og við komumst í NCAA úrslitakeppnina í fyrsta sinn í sögu prógrammsins okkar,“ sagði Perazic og ljóst að henni þyki mikið til Hönnu koma.

Styrkþegar Fulbright eru nokkuð merkilegur hópur

Fulbright styrkurinn sem Hanna hlotnaðist er einn sá virtasti í heiminum í dag og styrkir framhaldsnám fyrir alþjóðlega námsmenn sem vilja stunda nám í Bandaríkjunum. Nemendur sækja um námsstyrkinn í heimalandi sínu og eftir langt ferli geta þeir stundað meistara- eða doktorsnám í Bandaríkjunum. Þjálfari Hönnu gæti ekki verið stoltari og bendir á að Hanna skarar fram úr í öllu sem hún tekur sér fyrir hendur.

„Það sem er ótrúlegt er að meðfram öllum þessum dugnaði hennar í náminu og í íþróttum, starfi hennar með mismunandi klúbbum á háskólasvæðinu, auk allrar fjáröflunar- og samfélagsvinnu sem liðið okkar tekur þátt í finnur Hanna einhvern veginn alltaf leið til að brosa. Hún hefur svo skemmtilegan persónuleika og ofan á allt hefur Hanna líka frábæran húmor.“

Karfan óskar Hönnu Þráinsdóttur innilega til hamingju með árangur sinn og vonast til að heyra meira af afrekum hennar í framtíðinni!

https://www.facebook.com/GCU.BB/posts/4453225814786237