Það var boðið upp á allt það besta í íslenskum körfubolta þegar erkifjendurnir Grindavík og Stjarnan mættust. Eftir gríðarlega spennandi lokamínútur voru það heimamenn sem höfðu betur, 92-88. Hittnin var ekki upp á það besta hjá liðunum í byrjun, en ekkert gefið eftir. Svo tóku menn að hitna og hitta en ekki mátti mikið sjá á milli liðanna nánast allan leikinn; Grindvíkingar komust mest níu stigum yfir í leiknum en Stjarnan sex stigum – annars var þetta bara stál í stál, eins og við mátti búast þegar þessi lið mætast.


Bæði þessi lið eru vel mönnuð og til alls líkleg í vetur, og körfuboltinn sem þau buðu upp á í þessum leik gefur fögur fyrirheit um það sem koma skal. Stjarnan átti möguleika á að jafna leikinn með 3ja stiga körfu þegar örfáar sekúndur voru eftir, en skotið geigaði og heimamenn gulltryggðu sigurinn með vítaskoti þegar innan við sekúnda var eftir.
Geggjaður leikur – frábær skemmtun. Tilþrifin sem leikmenn beggja liða sýndu voru af öllum toga; troðslur, 3ja stiga skot, liprar hreyfingar og flottar sóknir. Í varnarleiknum var líka boðið upp á tilþrif upp á tíu.

Ólafur Ólafsson og Elbert Clark Matthews voru frábærir í leiknum fyrir heimamenn, en allir leikmenn liðsins lögðu eitthvað gott á hlaðborðið sem áhorfendum í húsinu og í sjónvarpinu heima í stofu var boðið upp á; jólahlaðborð eins og þau gerast best.


Hjá Stjörnunni var David Gabrovsek afar traustur – stöðugur leikmaður með meiru og skilar sínu án þess að vera með nokkur læti. Hilmar Smári sýndi virkilega flott tilþrif sem og Shawn Dominique Hopkins; Gunnar Ólafsson var sterkur – aggressífur varnarmaður og tók svo eina algjörlega skuldlausa troðslu sem gladdi jafnvel Grindvíkinga.
Eins og hjá Grindvíkingum lögðu fleiri í púkkið en að þessu sinni dugði það ekki til sigurs.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Ingibergur Þór)

Arnar Guðjónsson þjálfari Stjörnumanna var eðlilega ekki sáttur í leikslok, enda keppnismaður af dýrari gerðinni; hann sagði þó að leikurinn hefði verið góður, án efa góð skemmtun, en hann hefði auðvitað viljað fara heim í Garðabæinn með sigur:


“Ég er auðvitað ekki sáttur, við erum búnir að tapa of mörgum leikjum í vetur og eigum að geta betur – en stigatalan segir bara það sem skiptir máli. Holningin á okkur er ekki nægilega góð, en mér fannst við búnir að bæta okkur mikið í tveimur leikjunum á undan þessum. Þess vegna var ég bjartsýnn á að við myndum klára leikinn, en svo fór ekki. Við erum ekki á þeim stað eða slóðum sem við viljum vera á, við hljótum bara að eiga helling inni – ég trúi ekki öðru. En ég tek ekkert af Grindvíkingum, þeir voru mjög góðir og hreinlega splundruðu vörn okkar alltof oft. Nú er það bara okkar að gera eitthvað í málunum; ég vil meira frá mínum mönnum og ég veit að þeir vilja líka meira. Við höfum lið til þess að ná langt en þurfum allir sem einn að gera betur en við höfum gert hingað til.”

Ólafur Ólafsson átti stórleik fyrir Grindvíkinga og virkar bara betri og betri eftir því sem árin verða fleiri; hitti vel og dreif sína menn áfram og var eðlilega ánægður í leikslok:


“Þetta var virkilega flotttur sigur í góðum leik. Það er alltaf fjör þegar þessi lið mætast og það er ekkert að fara að breytast. Mér finnst vera mjög góð ára yfir liðinu núna; líklega sú besta í ein þrjú ár. Við erum búnir að vera stöðugri á þessu tímabili en undanfarin ár og það er eitthvað sem við erum ánægðir með og gefur okkur góða von um að gera góða hluti á þessu tímabili. Eðlilega höfum við verið gagnrýndir nokkuð síðustu tímabilin vegna skorts á stöðugleika; höfum annað hvort verið frábærir eða algjör andstaða við það. Þetta er eitthvað sem hefur vantað hjá okkur og við verðum að halda góðri einbeitingu áfram og sleppa sveiflunum, og við erum vel meðvitaðir um það. Heildarbragurinn á liðinu er bara betri en í þó nokkuð langan tíma, en við förum ekkert fram úr okkur – við ætlum okkur að gera vel og stöðugleiki er að mínu mati lykillinn að því. Ég var alveg sáttur með minn leik, var heitur og tek skot ef ég finn það, en vil frekar dreifa þessu þótt það sé gaman að vera heitur og skora mikið.”