Keflavík lagði heimamenn í KR á Meistaravöllum í kvöld í 8. umferð Subway deildar karla, 88-108.
Eftir leikinn er Keflavík eitt í toppsæti deildarinnar með 14 stig á meðan að KR er í 7. sætinu með 8 stig.
Gangur leiks
KR hafði yfirhöndina í upphafi leiks. Ná að hlaupa vel með Keflvíkingana og eru 6 stigum yfir eftir fyrsta leikhluta, 31-25, en leikstjórnandi þeirra Adama Darboe setti 10 stig í þessum fyrsta leikhluta. Bæði skotklukka heimamanna (sem stöðva þarf leik útaf) og Keflvíkingar ná að hægja á leiknum í öðrum leikhlutanum. Vinna hægt og bítandi niður forskot heimamanna og eru komnir með yfirhöndina þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 50-55.
Atkvæðamestur heimamanna í fyrri hálfleiknum var Adama Darboe með 15 stig og 7 stoðsendingar. Þá er vert að minnast flottrar innkomu Almars Orra Atlasonar í þessum fyrri hálfleik, en hann setti 7 stig á 7 mínútum spiluðum í fyrsta og öðrum leikhlutanum.
Fyrir gestina úr Bítlabænum var David Okeke gífurlega flottur í fyrri, með 15 stig, 9 fráköst og Valur Orri Valsson kom honum næstur með 13 stig, 4 stoðsendingar.
Keflvíkingar ná svo aðeins að bæta við forskot sitt í upphafi seinni hálfleiksins og eru 9 stigum yfir eftir þrjá leikhluta, 70-79. Í upphafi fjórða leikhlutans gera gestirnir svo nánast út um leikinn, ná mest einhverri 16 stiga forystu um miðbygg fjórðungsins og sigla að lokum nokkuð öruggum 88-108 sigri í höfn.
Kjarninn
KR-ingar söknuðu Dani Koljanin gríðarlega í leik kvöldsins, en hann er frá vegna meiðsla. Tapa frákastabaráttunni sannfærandi og ljóst er að ef þeir ætla sér eitthvað í vetur, þá verða þeir að styrkja róteringu stærri leikmanna hjá sér eitthvað. Shawn Glover gat eiginlega ekkert í þessum leik og þó svo að Almar sé efnilegur og skili fínum mínútum, þá er það ekki svo að þeir geti treyst á að hann leysi framherja/miðherja vandræðin þeirra gegn stærri liðum deildarinnar (eins og Keflavík)
Hægt er að segja að Keflavík hafi gert það sem þurfti í þessum leik. Fengu fínar frammistöður frá sínum lykilmönnum og það var feikinóg í kvöld. Enginn þeirra með yfir 30 í framlag, en fimm á milli 17 og 28.
Tölfræðin lýgur ekki
Keflavík tók 48 fráköst í leiknum á móti aðeins 31 hjá KR.
Atkvæðamestir
Dominykas Milka var framlagshæstur Keflvíkinga í kvöld, en hann skilaði 23 stigum og 9 fráköstum. Þá var David Okeke með 24 stig og 12 fráköst.
Fyrir heimamenn var Adama Darboe bestur með 18 stig, 12 stoðsendingar og Þórir Guðmundur Þorbjarnarson bætti við 21 stigi, 8 fráköstum og 7 stoðsendingum.
Hvað svo?
KR á leik næst komandi fimmtudag 9. desember gegn Þór í Þorlákshöfn, degi seinna tekur Keflavík á móti Tindastól í Blue Höllinni.