Breiðablik lagði Keflavík í kvöld í Subway deild kvenna, 91-68. Eftir leikinn er Keflavík í 5. sæti deildarinnar með 8 stig á meðan að Breiðablik er í 7. sætinu með 2 stig, en leikurinn var sá fyrsti sem þær vinna samkvæmt töflu deildarinnar.

Fyrir leik

Afskráning Skallagríms úr Subway deildinni fór nokkuð illa með stöðu beggja liða í töflunni. Keflavík eftir það í 5. sæti deildarinnar með 8 stig á meðan að Breiðablik var í neðsta sætinu, án sigurs það sem af er deildarkeppni.

Liðin höfðu í eitt skipti áður mæst í vetur, þann 27. október í Keflavík, en þá fóru heimakonur með nokkuð öruggan sigur 80-59 þar sem að Daniela Morillo fór á kostum fyrir þær, var með 16 stig og 20 fráköst á meðan að Telma Lind Ásgeirsdóttir var best fyrir Blika með 16 stig og 7 fráköst.

Síðan þá hefur lið Breiðabliks farið í gegnum miklar breytingar, þar sem meðal annars tveir þeirra bestu leikmanna Isabella Ósk Sigurðardóttir og Michaela Lynn Kelly eru nú komnar í liðið.

Gangur leiks

Það voru heimakonur í Blikum sem byrjuðu leik kvöldsins betur. Isabella Ósk fór fyrir sínu liði og setti heil 9 stig í fyrsta leikhlutanum, en fimm aðrir leikmenn komust á blað í fjórðungnum sem endaði 22-15. Blikar gera vel að halda forystu sinni í öðrum leikhlutanum þrátt fyrir áhlaup gestanna, en þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik er staðan 40-36.

Systurnar Anna Ingunn og Agnes María Svansdætur stigahæstar fyrir Keflavík í fyrri hálfleiknum. Anna Ingunn með 13 stig og Agnes María 10 stig. Fyrir heimakonur var Isabella Ósk Sigurðardóttir atkvæðamest með 9 stig, 4 fráköst og Michaela Lynn Kelly bætti við 8 stigum og 4 fráköstum.

Að sjálfsögðu fór hrósið á heimakonur í Breiðablik fyrir að hafa spilað fyrri hálfleikinn betur á báðum endum vallarins, en þær gerðu sérstaklega vel á Daniela Morillo hjá Keflavík, sem var með 5 stig og 3 villur eftir fyrstu tvo leikhlutana.

Í upphafi seinni hálfleiksins ná heimakonur að koma forystu sinni mest í 14 stig. Keflavík nær þó aðeins að klóra í bakkann fyrir lok þriðja leikhlutans, en staðan fyrir þann fjórða er 67-58. Varnarlega byrjar Keflavík fjórða leikhlutann sterkt, halda heimakonum stigalausar fyrstu fimm mínúturnar. Ná hinsvegar ekki að nýta sér það nægilega á hinum enda vallarins.

Keflavík kemst 5 stigum næst þeim, 67-62, áður en Breiðablik setur fótinn aftur á bensíngjöfina og kemst aftur 12 stigum yfir þegar um þrjár mínútur eru eftir, 74-62. Á lokamínútunum ganga heimakonur svo endanlega frá Keflavík, sigra að lokum með 23 stigum, 91-68.

Tölfræðin lýgur ekki

Blikar voru sjóðandi heitar fyrir utan þriggja stiga línuna í leiknum, settu niður 15 af 35 (42%) á meðan að Keflavík setti aðeins 9 þrista af 32 rilraunum í leiknum (28%)

Atkvæðamestar

Isabella Ósk Sigurðardóttir var stórkostleg fyrir Blika í dag, skilaði 25 stigum, 14 fráköstum og 4 stoðsendingum.

Fyrir Keflavík var Anna Ingunn Svansdóttir best með 23 stig og 7 fráköst.

Hvað svo?

Bæði lið eiga leik næst á milli jóla og nýrárs, þann 29. desember. Keflavík heima gegn Njarðvík á meðan að Breiðablik mætir Haukum í Ólafssal.

Tölfræði leiks