Haukar unnu Grindavík í Subway-deild kvenna þegar Grindvíkingar mættu í heimsókn til í Ólafssal á Ásvöllum í kvöld. Eftir sigurinn breyttist staða hvorugra liða í deildinni, en Haukar eru ennþá í 5. sæti og þar á eftir Grindavík í 6. sæti.

Gangur leiks

Leikurinn fór skemmtilega af stað. Robbi Ryan kom þessu í gang fyrir Grindavíkurkonur og flæddi sókn þeirra að mestu í gegnum hana í fyrsta leikhluta. Hún skoraði 9 stig í leikhlutanum og tók 4 fráköst. Hjá heimakonum fór Bríet Sif mjög vel af stað þessum leik og skilaði miklu framlagi í fyrsta leikhluta, með 6 stig, 2 fráköst og 2 stoðsendingar. Leikurinn var mjög jafn eftir fyrsta leikhluta og fóru gestirnir með tveggja stiga forystu inn í 2. leikhluta, 18-16.

Í öðrum leikhluta hélt spennan áfram. Grindvíkingar komust 7 stigum yfir þegar tæpar 3 mínútur voru eftir af leikhlutanum. Þær litu mjög vel út og voru stutt frá því að ná stærri forystu, en Haukar náðu að svara með góðri vörn og baráttu. Robbi Ryan náði að auka forrystu Grindvíkinga um 5 stig fyrir hálfleiksflautið, með frákasti og glæsilega keyrslu upp allan völlinn í sniðskot. Staðan var 30-35 í lok hálfleiks.

Í þriðja leikhluta voru liðin nokkuð jöfn til að byrja með, en Grindavík byrjaði nú af alvöru að hitta úr þriggja stiga skotunum sínum. Þær voru með fjóra þrista í leikhlutanum og þristur Theu Ólafíu Jónsdóttur kom Grindavík 12 stigum yfir þegar tvær mínútur voru eftir af leikhlutanum. Þá komst Tinna Guðrún vel á blað síðustu tvær mínúturnar og skoraði 6 stig í tveimur sóknum í röð til þess að minnka muninn í 47-53 fyrir upphaf 4. leikhluta.

Spennan í 4. leikhluta var rafmögnuð. Haiden Palmer byrjar á því að hitta þrist til þess að minnka muninn í 3 stig og liðin skiptust á körfum til að byrja með. Staðan var svo 55-58 í heilar þrjár mínútur þangað til að Tinna Guðrún skoraði úr sniðskoti til þess að minnka muninn í 1 stig. Þá náðu Haukar fyrstu forystunni síðan í 1. leikhluta þegar Sólrún Inga hitti þrist til þess að koma þeim í 62-60 forystu með 3 mínútur eftir. Haukar náðu að klára þennan jafna leik á heimavelli og Tinna Guðrún skellti í lás með þriggja stiga körfu til þess að koma Haukum 68-63 yfir þegar 15 sekúndur voru eftir. Það urðu lokatölur leiksins.

Konur leiksins

Hjá Haukum var það ungstirnið Tinna Guðrún Alexandersdóttir sem var atkvæðahæst, en hún átti mjög góðan leik og skoraði 19 stig í seinni hálfleik eftir hæga byrjun í þeim fyrri. Haiden Palmer átti einnig mjög góðan leik en hún var tveimur stoðsendingum frá því að ná þrefaldri tvennu.

Tinna Guðrún:         21 stig, 2 fráköst, 2 stolnir boltar og 17 framlagspunktar

Haiden Palmer:       13 stig, 10 fráköst, 8 stoðsendingar og 15 framlagspunktar.

Hjá gestunum var það svo Robbi Ryan sem hélt áfram sínum yfirburðum, en hún var einni stoðsendingu frá þrefaldri tvennu. Næstframlagshæst hjá gestunum var Arna Sif Elíasdóttir, sem stóð sig gríðarlega vel af bekknum.

Robbi Ryan:             19 stig, 10 fráköst, 9 stoðsendingar og 24 framlagspunktar

Arna Sif:                    13 stig, 3/4 í þriggja, 2 fráköst og 11 framlagspunktar

Kjarninn

Þegar Grindavíkurkonur hleyptu Haukakonum inn í leikinn í lok 3. leikhluta misstu þær leikinn frá sér. Strax í upphafi 4. skora Haukar og verða sterkari í vörninni og hætta að leyfa Grindvíkingum að taka sóknarfráköst. Ákvörðun Bjarna Magnússonar að láta bekkinn að vera inni á síðustu mínútur leiksins skilaði sér vel, því að Sólrún Inga og Rósa Björk voru lyklarnir í vörninni í endurkomu heimakvenna og drifu liðsfélaga sína áfram. Liðsvörn Haukanna kláraði þennan leik.

Hvað svo?

Haukar eiga erfiðan næsta leik, á útivelli gegn Valskonum þann 15. desember. Þar munu þær reyna að komast á skrið í deildinni aftur, en fyrir leik kvöldsins höfðu þær tapað tveimur leikjum í röð gegn Fjölni.

Súrt tap fyrir Grindavík eftir að hafa sigrað Keflavík í síðustu umferð, en víst er að þær geti sótt sér stig í næstu tveimur umferðum, er þær mæta Fjölniskonum á heimavelli 15. desember. Eftir jólafríið mæta þær svo Skallagrím á útivelli 30. desember.

Tölfræði leiks

Umfjöllun, viðtal / Oddur Ólafsson