Íslandsmeistarar Vals lögðu Skallagrím í kvöld í 9. umferð Subway deildar kvenna, 92-47. Eftir leikinn er Valur í 3. sæti deildarinnar með 12 stig á meðan að Skallagrímur er í 8. sætinu, enn án sigurs.

Munar um minna

Í lið Skallagríms vantaði í kvöld landsliðskonuna Emblu Kristínardóttur. Munaði það um minna fyrir Borgnesinga, en hún hefur verið að skila 13 stigum, 6 fráköstum og stoðsendingu að meðaltali í leik fyrir þær á tímabilinu.

Gangur leiks

Gestirnir úr Borgarnesi fóru vel af stað í leiknum. Ná í smá forystu á upphafsmínútunum, 2-6, sem Íslandsmeistararnir vinna ná þó að vinna niður með 11-0 áhlaupi, en staðan eftir fyrsta leihluta er 13-8. Nokkru munaði um fyrir Skallagrím að Inga Rósa Jónsdóttir þurfti að fara meidd af velli um miðjan fyrsta leikhlutann, en hún hafði skilað miklu fyrir þær varnarlega á þessum fyrstu mínútum leiksins. Valskonur halda uppteknum hætti í byrjun annars leikhlutans. Nánast loka öllu á varnarhelmingi vallarins og salla boltanum nógu oft niður til þess að fara með mjög svo þægilega 20 stiga forystu til búningsherbergja í hálfleik.

Atkvæðamestar í fyrri hálfleiknum voru Ameryst Alston fyrir heimakonur með 12 stig, 5 stoðsendingar og Nikola Nedoroščíková fyrir Skallagrím með 7 stig.

Segja má að heimakonur geri svo útum leikinn í upphafi seinni hálfleiks. Með góðum 34-17 þriðja leikhluta koma þær forystunni í 37 stig fyrir lokaleikhlutann, 72-35. Eftirleikurinn að er virtist nokkuð auðveldur, Valskonur áfram með fótinn á bensíngjöfinni í þeim fjórða og sigra að lokum með 45 stigum, 92-47.

Kjarninn

Þessi leikur virtist aldrei vera neitt sérstaklega sanngjarn. Valskonur óðum að ná vopnum sínum á þessu tímabili á meðan að Skallagrímur, sem farið hefur í gegnum miklar breytingar, á enn nokkuð í land. Lærdómur sem draga má af þessu því ekki beint mikill, annar en sá kannski að Skallagrímur þarf að bæta sinn leik þó nokkuð ef ekki á illa að fara í vetur.

Atkvæðamestar

Ameryst Alston var atkvæðamest Valskvenna í leiknum með 22 stig og 11 stoðsendingar. Fyrir Skallagrím var það Leonie Edringer sem dró vagninn með 10 stigum og 10 fráköstum.

Hvað svo

Bæði lið eiga leik næst gegn Breiðablik í Smáranum. Valur komandi miðvikudag 1. desember, en Skallagrímur þann 5. desember.

Tölfræði leiks