Tindastóll tók á móti nýliðum Vestra í Subway deild karla í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld.

Fyrsti fjórðungur leiksins var líklega slakasta frammistaða heimamanna það sem af er vetri. Leikmenn Tindastóls mættu einfaldlega ekki til leiks og leyfðu gestunum að stjórna leiknum frá byrjun. Gestirnir komust í 0-5 og svo 2-13 áður en Baldur tók leikhlé og reyndi að koma hausnum á sínum mönnum í gang. Stólar minnkuðu muninn í 13-18 en svo datt botninn úr leik liðsins aftur og gestirnir héldu áfram að auka muninn og náðu mest 14 stiga forystu. Lítið sem ekkert gekk í sóknarleik heimamanna og vörnin var andlaus og leyfði gestunum að komast í þægileg skot hvað eftir annað. Þristur frá Pétri Rúnari lagaði stöðuna aðeins í lok leikhlutans en staðan 18-29 að honum loknum og stuðningsmenn á pöllunum langt frá því að vera ánægðir.

Allt annað Stólalið mætti svo til leiks í öðrum fjórðung og heimamenn fóru að saxa niður forskot gestanna. Eftir rúma mínútu var munurinn kominn niður í 4 stig eftir 7-0 kafla heimamanna og allt annar bragur á liðinu. Vestramenn voru þó hvergi nærri hættir og settu næstu 6 stig og munurinn kominn í 10 stig. Þessi 5-6 stiga sprettir liðanna komu svo til skiptis en Stólar voru sterkari á lokamínútunum og staðan var jöfn í hálfleik 45-45

Tindastóll náði svo betri tökum á leiknum í seinni hálfleik en voru þó aldrei að stinga þrjóska gestina af. Þristur frá Arnari og baráttukörfur frá Axel Kára komu muninum í 10 stig seint í þriðja leikhluta en slök síðasta mínúta hleyptu baráttuglöðum Vestramönnum í 5 stiga mun fyrir lokaátökin, 65-60

Frábær 11-0 kafli heimamanna um miðjan 4. leikhluta gerði svo út um leikinn og þeir náðu mest 16 stiga forystu þegar rúmar 2 mínútur voru eftir af leiknum og það var munur sem gestirnir voru aldrei að fara að brúa. Gestirnir virkuðu þreyttir þegar lokaáhlaup Stólanna hófst og var fátt um varnir. Lokatölur 92-81.

Javon Bess var stigahæstur í liði heimamanna en skotnýting hans var skelfileg til að byrja með. Pétur Rúnar var hinsvegar maður leiksins með 18 stig og 26 framlagspunkta og setti öll sín skot niður, 3 2ja, þrjá þrista og var með 3/5 vítum niður, auk 5 stoðsendinga. Siggi Þorsteins var með 13 stig og 8 fráköst en virkaði þreyttur. Hjá gestunum var Bosley með 22 stig og 6 stoðsendingar en Julio Afonso var þeirra sterkastur með 21 stig og 11 fráköst.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Umfjöllun, myndir & viðtöl / Hjalti Árna