Ragnar Örn Bragason, leikmaður Þórs Þorlákshafnar, var til viðtals í þriðja þætti af hlaðvarpsþættinum Undir Körfunni hjá Atla Arasyni. Ragnar ræðir meðal annars spilamennsku Þórs og uppgang liðsins undir stjórn Lárusar Jónssonar.

„Árið á undan [2019-20] klikkaði allt sem klikkað gat. Útlendingarnir sem komu pössuðu ekki í liðið og við fundum aldrei okkar ‘identity‘. Svo hættir Frikki [Friðrik Ingi Rúnarsson] og við fáum Lalla [Lárus Jónsson] og hann velur fullkomna útlendinga fyrir það sem hann vill standa fyrir. Hann vildi spila hratt en með skipulagi. Við spilum kannski hraðan og villtan körfubolta en á bak við þennan villta körfubolta er bullandi skipulag,“ sagði Ragnar.

Viðsnúningur Þórs frá botnbaráttu árið 2020 til Íslandsmeistaratitils árið 2021 er ótrúlegur en innkoma Lárusar þjálfara skiptir þar miklu máli.

„Svo fengum við allir skýr hlutverk og við tókum því allir. Sama hversu stór þau voru, eða hvort þau voru minni frá árinu áður. Halldór Garðar í fyrra til dæmis. Hlutverkið hans í fyrra frá árinu á undan var alveg svart og hvítt en hann tók því bara og masteraði það. Ég held að allir hafi verið sáttir við sitt og hafi ætlað að vera geggjaðir í því sem Lalli bað okkur um að geggjaðir í.“

„Hann [Lalli] kemur með stíl af körfubolta sem er ógeðslega skemmtilegt að spila. Við trúm allir á hann og hann lætur okkur trúa á hann og sjálfa okkur. Það gekk fullkomlega upp,“ sagði Ragnar um breytt hlutverk við þjálfaraskiptin.

Ragnar var búinn að kynnast því að spila með Styrmi Snæ Þrastarsyni frá árunum á undan, en áður en Lárus kom þá fékk Styrmir ekki eins mikið að spila. Styrmir fór frá 5:25 mínútum að meðaltali tímabilið 19/20 upp í 27:05 mín að meðaltali undir stjórn Lárusar.

„Aðal munurinn var samt maður að nafni Styrmir Snær Þrastarson sem tók framförum og sýndi sannarlega hversu ógeðslega góður hann var. Maður vissi árið á undan hvað hann var góður en maður skildi aldrei af hverju hann spilaði ekki meira. Þarna [2020/21] fékk hann bara leyfi til að fara inn á völlinn og gera sitt. Hann var stór hlutur af því hvað þetta gekk vel.“

Ragnar telur Lárus vera góðan í því að setja saman lið af leikmönnum með réttu blönduna. Eftir að hafa misst nánast allar sínar stærstu byssur frá Íslandsmeistaraliðinu í fyrra, þá hefur Lárus nánast bætt um betur með liðinu sem Þór mætir með til leiks í ár. Eftir sjö umferðir eru Íslandsmeistararnir á toppi deildarinnar og til alls líklegir, annað árið í röð.

„Ég held að Lalli sé virkilega góður í því að finna réttu leikmennina. Hann er ekkert kannski að pikka bara einhverja ‚high profile‘ gæja sem er kannski góðir í körfu en hentar svo ekki alveg í það sem við ætlum að gera. Hann [lalli] er ekki bara að hoppa á leikmann bara af því hann er high profile sem fittar svo ekkert inn. Hann virðist finna 100% réttu púslin fyrir það sem okkur vantar og það sem við viljum gera,“ sagði Ragnar Örn Bragason, leikmaður Þórs Þorlákshafnar, en hlusta má á viðtalið í heild með því að smella hér