Ragnar Örn Bragason, leikmaður Þórs Þorlákshafnar, var til tals hjá Atla Arasyni í hlaðvarpsþættinum Undir Körfunni. Ragnar fer um víðan völl í viðtalinu og meðal annars yfir uppeldisárin sín í Breiðholtinu og viðskilnaðinn við ÍR.

„Ef ég á að vera alveg hreinskilin, það voru ekki allir sáttir í Breiðholtinu,“ sagði Ragnar eftir að hafði yfirgefið ÍR og gengið til liðs við Þór.

„Ég var ekki mikið að láta vita af því að ég ætlaði að fara. Eftir á séð, þá var maður ekkert voðalega næs eða góður og maður sér kannski smá eftir því hvernig maður fór að hlutunum. Ég vildi bara fara annað, kannski var ég vitlaust og of graður miðað við hvað ég var þar.“

Skiptin frá ÍR yfir til Þórs áttu sér stað árið 2015 en þá var Einar Árni Jóhannsson að þjálfa Þór Þorlákshöfn og Ragnar var snemma ákveðin að skipta yfir til Þórs. „Ég ákvað strax að taka á mig að keyra þrengslin alltaf og koma hingað,“ sagði Ragnar.

Viðskilnaðurinn við ÍR var ekki auðveldur að mati Ragnars en honum hefur alltaf fundist erfitt að koma aftur í Seljaskólann að spila við ÍR, eftir að hann yfirgaf félagið.

„Allar frammistöðu mínar, liggur við alveg þangað til í fyrra, á móti ÍR og sérstaklega í Seljarskóla. Ætli það hafi ekki verið verstu leikirnir á ferlinum,“ svaraði Ragnar aðspurður af versta leiknum sínum á ferlinum til þessa.

„Mér fannst ótrúlega lengi bara skrítið að fara þangað [í Seljaskóla]. Þó það voru kannski liðin þrjú ár síðan ég fór frá ÍR þá fannst mér alltaf eins og ég væri ný farinn frá ÍR og væri að koma þangað aftur í fyrsta skipti. Það var alltaf eitthvað sérstakt við að fara þangað,“ sagði Ragnar.

Það má þó segja að hjartað hans Ragnars slái þó enn þá í takt við ÍR-inga því hann notaði einnig tækifærið og lét erkifjendurna í Leikni Reykjavík heyra það. „Aldrei að segja aldrei en það er eitt lið í annari deild sem ég myndi aldrei spila með, það er Leiknir Reykjavík. Verandi ÍR-ingur þá myndir þú þurfa að borga mér þrjár milljónir, íbúð og bíl svo ég myndi klæðast treyjunni þeirra,“ sagði Ragnar og hló, áður en hann bætti við, „Þeir kalla sig stolt Breiðholts sem fer ómetanlega mikið í taugarnar á mér,“ sagði Ragnar Örn Bragason, leikmaður Þórs Þorlákshafnar. Þáttinn í heild má nálgast hér